...c'est magnifique!

þriðjudagur, september 28, 2004

Aftur til fortíðar

Vegna yndislegs iðjuleysis hóf ég fyrir stundu að kíkja á gömul ritverk eftir sjálfan mig. Ég tvísmellti á ritgerðamöppuna fullur tilhlökkunar og galopinn fyrir sæluvímu hinnar himnesku nostalgíu. Ó, hvað hún kom. Ég renndi í gengum stíla og ritanir tíundu bekkjar án þess að blikka né anda. Ég spenntist allur upp í stólnum, æstur í meira (ath. óæskilegt er að taka þessa setningu úr samhengi). Loks kom ég að forvitnilegri möppu: "8. bekkjar verkefni". Fikraði ég þá músabendlinum rólega að henni og sleit hana upp. Þar inni blöstu við mér alls kyns kræsingar sem voru margar hverjar ansi skondnar. Nú ætla ég að leyfa ykkur, lesendur góðir að njóta þess að lesa 8. bekkjar ritunina "Smáralindin" eftir Bjarna Þorsteinsson. Njótið.


Hjónin Marta og Jónas voru ekki alltaf sammála og Marta átti það til að vera svolítið stjórnsöm. Hún hafði alltaf eitthvað að segja um allt og var Smáralindin engin undantekning.

“Nei, nei og aftur nei, þú ferð ekki fet Jónas minn...”

“En-“

“Ég sagði nei. Þú ferð ekki í þessa heimskulegu verslunarmiðstöð.”

“Þú leyfir mér aldrei að gera neitt, en heyrðu, af hverju er ég að rífast við þig? Ég þarf ekki samþykki þitt til að gera eitthvað. Héðan í frá geri ég það sem mig langar til.”

“Ég er viss um að ég hef eitthvað að segja um það.”

Jónas hafði fengið nóg og strunsaði útí bíl. Hann setti í gang og keyrði áleiðis til Smáralindar. Það gekk mjög illa að finna bílastæði en loks fann hann eitt langt frá byggingunni. Hann var orðinn óþolinmóður og hljóp í áttina að verslunarmiðstöðinni. Þegar hann var næstum kominn snarstansaði hann. Fyrir utan hafði myndast löng röð. Við hliðina á röðinni stóð einhver starfsmaður sem hrópaði yfir allan hávaðann í fólkinu: “Því miður kemst ekki fleira fólk inn. Byggingin þolir ekki svona mikið álag. Komið aftur seinna.” Rétt í þessu stoppaði leigubíll fyrir aftan Jónas og út úr honum kom Marta, konan hans. Jónas var orðinn mjög reiður, hann ætlaði ekki að láta hana koma í veg fyrir að hann færi inn í Smáralind. Hann hljóp að dyrunum, ýtti fólkinu frá og steig inn í verslunarmiðstöðina. Marta hljóp á eftir honum. “Af hverju vildurðu ekki að ég kæmi hingað?” sagði Jónas þegar Marta var komin inn. “Því ég var ekki mjög ánægð þegar þú varst svona æstur í að skoða risastórt ty-” Smáralindin hrundi.


Svona var víst fílingurinn fyrir þremur árum. Hver veit nema ég birti eitthvað fleira sniðugt úr gagnasafni mínu seinna.