...c'est magnifique!

miðvikudagur, október 13, 2004

Strætó

Á mínum uppvaxtarárum (ekki það að ég sé eitthvað fullorðinn núna) í Keflavík (ekki það að það sé langt síðan ég flutti þaðan) lagði ég það ekki í vana minn að ferðast með strætó. Þar eru vegalengdirnar eilítið viðráðanlegri heldur en hérna á höfuðborgarsvæðinu og yfirleitt hægt að "labbiddabara". Nú eru breyttir tímar. Það er langt í allt. Þá er ekkert annað í stöðunni en að kaupa sér strætókort og láta sér lynda hrykkjótta leið á áfangastað.
Núna er ég semsagt tiltölulega nýtilkominn fastagestur í strætó. Ég hef ferðast með honum (meira að segja tveimur) á hverjum morgni niður í MR og svo heim aftur. Þar hefur maður lent í ófáum hremmingunum:


Um daginn sat ég í hægindum mínum í 44 (litla Hafnarfjarðarstrætó) þegar ég tek eftir því að bílstjórinn er alltaf að gjóa til mín augunum. Þetta var allt í fína í fyrstu en síðan fór hann að hressast maðurinn og hafði varla augun af mér. Svipur hans var ólæsilegur. Ég reyndi að gera upp við mig hvort þetta væri einhver kynferðislega brenglaður gamall kall eða hvort ég væri kannski bara með hor. Ég var ekki með hor. Nú, svo gerðist það í næsta stoppi að maðurinn sá arna kallar mig til sín og ásakar mig um að vera með útrunnið strætókort. Ég kvað svo ekki vera og sýni honum kortið máli mínu til stuðnings. Hann sagði fyrirgefðu í hálfum hljóðum og hleypti mér aftur í sætið.
Örfáum vikum síðar var ég sakaður um kortasvindl á ný. Ég sýndi ökuþórnum kortið. Hann reyndi að afsaka sig á einhvern óskiljanlegan hátt. Ég veit ekki hvað veldur þessari tortryggni í minn garð af hálfu strætóbílstjóra. Eru þetta kannski bara graðir miðaldra menn sem þrá ekkert heitar en að sjá mig í návígi?


Svo erum við systkinin í 44 um daginn ásamt Vöku á leiðinni heim í Áslandið. Okkur líður vel og höllum við okkur að veggjum bifreiðarinnar. Við erum að keyra í kringum hringtorg eitt þegar miðaldra kona stendur upp og gengur rólega að dyrunum. Þess má geta að þessi tiltekni strætó er örsmár, á honum eru einungis einar dyr sem staðsettar eru ská fyrir aftan bílstjórann. Er við komumst á beinan veg á ný er kona þessi komin að hurðinni og bíður þar. Ekki hefur verið ýtt á stanstakkann. Það eru aðeins nokkrir metrar í strætóskýlið og athygli mín er vakin. Konan stendur þarna enn, rólegheitin uppmáluð. Svo allt í einu gerist það. Um leið og bíllinn kemst samsíða skýlinu þrykkir hún takkanum inn. Strætóbílstjórinn aðhefst ekkert enda hlýtur konan að vilja fara út næst, annars hefði hún ekki ýtt á takkann svona seint. Þá hefst skemmtunin:

Kona: Hvað? Á ekkert að hleypa manni út?

Bílstjóri: Þú áttir að ýta á takkann fyrr. (Hann stöðvar bílinn.)

Kona: Ég skal sko segja þér það að það er enginn takki þar sem ég sat!

Bílstjóri: Þeir eru út um allan bíl. (Hann lítur við og konan bendir honum á sætið en sér um leið þennan líka stæðilega hnapp fyrir ofan það.)

Kona: Nú, já, fyrirgefðu. Ég hélt bara að þú myndir taka tillit til þess að ég stæði upp.

Bílstjóri: Ég get með engu móti fylgst með því. Til þess eru stanstakkarnir.

Kona: VERTU EKKI AÐ RÍFA KJAFT VIÐ MIG !!! (...og strunsar hún síðan út úr vagninum.)

Bílstjóri: (Verður klumsa við þessu skyndilega æðiskasti og getur engu komið upp úr sér nema...) Bíddu... er ekki í lagi með þig, þarna, ha?

Á svona stundum er gaman í strætó og töluðum við vinirnir um þetta vel og lengi eftir á. En kannski þetta sé svona "you had to be there" saga og lesendum finnist þetta ekkert fyndið? Ég reyndar vorkenndi strætóbílstjóranum að lenda í svona kellingarherfu en þetta er örugglega hressasti og þægilegasti bílstjórinn hjá Strætó.


Einu öðru atviki vil ég deila með ykkur en það gerðist einmitt í dag. Þá var ég líka í 44 en í honum beið óvinveittur maður í yngri kantinum sem átti að heita bílstjóri. Er ég geng inn ber mér fyrir sjónir drengur (á að giska 10-12 ára) og virðist hann djúpt sokkinn í dauðaleit að einhverju. Ég sýni bílstjóranum kortið mitt góða og fæ mér svo sæti framarlega. Drengurinn leitar enn að guð má vita hverju og ökumaðurinn segir honum í sífellu að það vanti tíu krónur upp á gjaldið. Lagði ég nú saman tvo og tvo og fékk út að drengurinn væri að leita að tíkalli. Drengurinn stynur úr gremju og tilkynnir bílstjóranum að hann hafi bara ekki tekið meira með sér vegna þess að hann sé venjulega með strætómiða. Bílstjórinn lætur sér fátt um finnast og hamrar á því að tíu krónur vanti upp á. Greyið strákurinn er alveg ráðalaus og spyr hvort hann gæti bara ekki fengið þessar 210 krónur sínar til baka (sem hann hafði sett ofan í peningakassann). Maðurinn er ekki á þeim skónum heldur segir einfaldlega að hann hafi ekki lykil að kassanum og því geti krakkinn ekki fengið endurgreitt og bætir svo við að enginn hafi neytt krakkann til að setja peninginn í kassann. Nú er drengurinn frekar niðurdreginn og spyr hvort hann gæti ekki bara fengið að sitja í. Nei, segir kallinn og hristir hausinn, það vantar jú tíu krónur upp á. Mér blöskraði við að heyra þessi ómannúðlegu orð og fannst ekki mikið til þessa bílstjóra koma, svo ekki sé meira sagt. Ég dró þá upp leðurveskið, fann þar til eitt stykki tíkall, stóð upp, gekk að þeim kumpánum, lét myntina falla í baukinn og sagði ofursvalur: "Hérna er tíkall, ég er þá búinn að gera eitt góðverk í dag." Svo sneri ég mér á hæl og arkaði að sæti mínu. Drengurinn settist skammt frá, brosandi og þakkaði mér í bak og fyrir. Það hlakkaði í mér alla leiðina heim og þurfti ég oft að berjast við brosið til að halda kúlinu.