...c'est magnifique!

föstudagur, maí 12, 2006

Spýja mikil

Vívíví. Bara þrjú próf eftir. Níu búin og liðu frekar hratt.

Egils-saga hefur nokkra ljósa punkta. Það er dálítið seinlegt að komast inn í hana en þegar maður er kominn af stað breytist upplifunin í hálfgerðan skemmtilestur. Besti hluti bókarinnar er, svo ekki verður um villst, þessi:

Egill fann þá, að honum myndi eigi svo búið eira; stóð hann þá upp og gekk um gólf þvert, þangað er Ármóður sat; hann tók höndum í axlir honum og kneikti hann upp að stöfum. Síðan þeysti Egill upp úr sér spýju mikla og gaus í andlit Ármóði, í augun og nasarnar og í munninn; rann svo ofan um bringuna, en Ármóði varð við andhlaup, og er hann fékk öndinni frá sér hrundið, þá gaus upp spýja. En allir mæltu það, þeir er hjá voru, húskarlar Ármóðs, að Egill skyldi fara allra manna armastur og hann væri hinn versti maður af þessu verki, er hann skyldi eigi ganga út, er hann vildi spýja, en verða eigi að undrum inni í drykkjustofunni.

Egill segir: "Ekki er að hallmæla mér um þetta, þótt eg geri sem bóndi gerir, spýr hann af öllu afli, eigi síður en eg."

Ef þið eruð eitthvað í líkingu við mig þá hlóguð þið mikið og lengi af þessu. Einnig, ef þið eruð eins og ég, hafið þið farið að hugsa þvílíkt dásemdarsagnorð þarna er haft í hávegum: sögnin að spýja. Þetta orð mætti nýta sér óspart á alls kyns skemmtunum. Og, þar sem tjaldferð er nú handan við hornið, er ekki úr vegi að kynna sér beygingarmyndir þessarar sagnar nánar, fyrst í nútíð en svo í þátíð:

ég spý
þú spýrð
hann spýr
við spýjum
þið spýið
þau spýja

ég spjó
þú spjóst
hann spjó
við spjóum
þið spjóuð
þau spjóu

Að lokum, kynnu slíkar aðstæður að koma upp að boðháttar væri þörf:

spýðu!