...c'est magnifique!

laugardagur, janúar 21, 2006

Flugferð

Úff, ég þarf svo feitt að blogga að það er ekki fyndið.

Einu sinni fyrir langa löngu var ég í flugvél. Við fjölskyldan vorum með frímiða sem mamma átti síðan hún vann hjá Flugleiðum. Það varð til þess að við þurftum öll að sitja hvert í sínu lagi og ég lenti í gluggasæti við hliðina á einhverjum fullorðnum manni. Þegar dágóður tími var liðinn af flugtímanum hallaði ég mér fram til þess að ná í eitthvað úr bakpokanum mínum. Þá sá ég það. Þetta var eitt eftirminnilegasta augnablik á minni stuttu ævi. Á gólfinu, mitt á milli sætis míns og sætis hins fullorðna manns lá einn bandarískur peningaseðill, upp á eina milljón dollara. Ég snarstoppaði og starði. Í einni svipann var ég sviptur sakleysi æskunnar og mér ýtt út í hinn raunverulega heim. Eins og hendi hefði verið veifað breyttist eitthvað í mér, litli strákurinn í gluggasætinu var ekki lengur einfaldur og tær heldur tók sér bólfestu í honum græðgi og eigingirni. Ó, máttur þessa pappírssnifsis var ógurlegur. Hver hefði trúað því að pappír og blek gætu haft þessi áhrif? Hrifsað æskuljómann úr saklausu barni og sáð í staðinn fræi illsku og spillingu. Allt breyttist. Skemmtilegt flug og forvitnilegt fólk hvarf eins og dögg fyrir sólu og ég varð tortrygginn, afar tortrygginn. Ég settist strax teinréttur upp og kom fætinum haganlega fyrir seðilinn svo maðurinn við hliðina á mér sæi hann ekki. Ég gat ekki teygt mig í hann strax, fólk gæti séð það, maðurinn gæti séð það. Hann var nefnilega öðruvísi núna, eins og allt annað. Ég sat í sætinu mínu eins og ekkert hefði í skorist, eins eðlilega og ég gat. En maðurinn vissi eitthvað, mér fannst hann horfa á mig í sífellu, ég fann augun í honum brenna á hnakkanum er ég starði ákaft á ský fyrir utan vélina. Hvað átti ég til bragðs að taka? Þarna sat ég einn og yfirgefinn í þrjátíu þúsund feta hæð við hliðina á þeim sem ætlaði að svipta mig eignum mínum. Mér fannst hann hlæja að mér eins og hann vissi hvað ég var að hugsa og að það væri ekki möguleiki að ég myndi sleppa þaðan með fjársjóðinn. Ég andaði ört, fannst ég vera að kafna. Ég yrði að gera eitthvað fljótt áður en það yrði um seinan. Án þess að hugsa beygði ég mig niður og teygði mig í seðilinn græna. Fingurgómarnir snertu hann... en eitthvað var að.

Nú spyr ég ykkur lesendur góðir, hvað var að?