...c'est magnifique!

föstudagur, október 28, 2005

Blíp...blíp...blíííííí

Nú get ég loksins náð andanum. Hef ekki getað gert það í tvær vikur eða svona næstum því. Þessi vika hefur verið einum of brjáluð. Efnafræðipróf, tölvufræðipróf, Jón Hólabiskup Arason-fyrirlestur, dönskukjörbókarpróf, Halldórs þáttur Snorrasonar hinn síðari-fyrirlestur og Animal Farm-próf gerðu mér lífið leitt í þessari hektísku viku. Já, þetta var allt í einni viku. Eins og vel troðið burrito á Snæland Video. Talandi um Snæland þurfti ég í ofanálag að vinna á föstudaginn og laugardaginn um síðustu helgi en losnaði blessunarlega við sunnudagsvaktina. Þarf að fara að hætta í þessari vinnu. Eða allavega fá færri vaktir.

Svo gerðist ömurlega leiðinlegt atvik á þriðjudaginn. Strætóbílstjórinn á 22 ákvað að slugsa í starfi um morguninn og mætti upp í Ásland sex mínútum of seint. Djöst mæ lukk. Þegar 22 komst loksins niður í Fjörð var Ásinn inn í Reykjavík náttúrulega farinn.
-"Já, það getur verið að hann sé farinn, annars veit ég það ekki. En hann er náttúrulega á 10 mínútna fresti þannig að það er allt í lagi." Nei, herra strætókall, hann var ekki á 10 mínútna fresti. Eftir 20 mínútna bið niðri í Firði renndi S1 í hlað. Og jú, tölvufræðiprófið var í fyrsta tíma. Og jú, tíu mínútur í það. Og jú, ég var enn í Hafnarfirði. Og jú, MR er í Reykjavík. Og jú, það var ekki séns að ná því. Djöst mæ lukk. Mætti 20 mínútum of seint. Og jú, tölvufræðiprófið hálfnað. Og nei, ekki hægt að klára tölvufræðipróf á þeim tíma. Fór í staðinn á Íþöku að lesa yfir sögufyrirlesturinn minn. Fann tvær villur í ártölum og breytti þeim. Þær hefðu líklega farið framhjá mér hefði ég ekki verið of seinn í prófið (þegar ég segi ég var seinn þá meina ég strætó var seinn... helvískur) og farið að lesa yfir fyrirlesturinn til að drepa tímann. Tilviljun eða örlög? Af því leiðir að alheimurinn er að segja mér að saga sé mikilvægari en tölvufræði, P(x)=y og allir eru ánægðir.

Svo eru einhver skemmtilegheit í farvatninu fyrir helgina. Ví!

Kem með skemmtilegri færslu síðar. Hvenær sem það verður. Á meðan getiði dáðst að vitfirringu Héðins.

Franska dagsins: "Je pense, donc je suis." Þýðing: "Ég hugsa, því er ég."

Salut!