...c'est magnifique!

þriðjudagur, janúar 08, 2008

Hugarró

"Eeeh? Aaa!... il piccolo piccolo!" sagði litli gamli húsvörðurinn áhugasamur og benti á fljúgandi furðudýr sem skaust um loftið af gífurlegri fimi og saug hunangslög af áfergju úr skærlitum blómum með löngum rana sem annars var dreginn saman í hring.

"Uuu... le piccolo... du... du monde?" spurði ég forvitinn en ítalskan mín var ekki upp á marga fiska.

"Si, si!" sagði hann kátur á móti. "Piccolo piccolo!"

"Uuu... is it... a bird?" Ég lagði mikla áherslu á síðasta orðið og veifaði meira að segja handleggjunum eins og fugl enda nokkuð skeptískur á að þetta framandi kvikindi gæti verið nokkuð svo hversdagslegt.

"Si, si! Il piccolo piccolo!" ítrekaði hann kampakátur einu sinni enn. Svipbrigðin breyttust hins vegar ekkert við spurninguna og grunaði mig að hann hefði ekki skilið. Ég ákvað því að spyrja hann ekkert frekar út í þennan, að því er virtist, kæra vin sinn í þeirri viðleitni að forðast óþægilegt og skilningslaust augnablik. Þess í stað sneri ég mér aftur að þessu fallega dýri sem hékk fast í lausu lofti við tigarlegt rautt blóm. Rétt mótaði fyrir leiftrandi vængjunum sem hreyfðust á ótrúlegum hraða líkt og á flugu.

Ég mundaði myndavélina en það reyndist hægara sagt en gert að ná mynd. Aftur á móti var skepnan allt annað en mannfælin; hún kippti sér ekkert upp við nærveru mína heldur þaut á milli krónublaða í leit að blómsykri. Í æsingi mínum við að ná mynd fór ég jafnvel svo nálægt að hún rakst í linsuna. Á næstu dögum átti ég eftir að sjá fleiri svona dýr, flest er Toskanasólin var í þann mund að setjast, við snyrtilegu beðin sem gamli húsvörðurinn hélt vel til haga.