...c'est magnifique!

sunnudagur, október 24, 2004

Gleði, gleði

Góðan daginn, kærleiksríku lesendur.

Það var gaman í gær. Mjög gaman. Því þá eyddi ég 15 tímum, án hvíldar, með stærðfræðiliðinu mínu. Það fóru þó ekki nema tveir og hálfur tími í sjálfa stærðfræðina.

Við hittumst öll fimm (Elísabet, Halla, Níels og Valborg ásamt mér) í MR klukkan 10 í gærmorgun. Ætlunin með því var að taka þátt í stærðfræðikeppni sem var í formi liðakeppni. Okkur gekk bara skítskikkanlega að koma þessu frá okkur þó að sum dæmin urðu að sitja á hakanum sökum óskiljanleika. Andlega útkeyrð héldum við, eftir keppni, á Subway á Austurstæti með heilann í mauki. Við keyptum kafbáta og fengjum frítt gos með - gegn framvísun Framtíðar-skírteinisins (Framtíðin er annað skólafélag MR fyrir ykkur sem ekki gangið í hann). Fljótt komust vitsmunir okkar í eðlilegt horf. Við kláruðum matinn okkar og töluðum saman í dágóða stund. Í framhaldi af því tilkynnti Halla okkur að hún þyrfti því miður að yfirgefa okkur til að versla afmælisgjöf handa þriggja ára barni. Við mótmæltum eins og við gátum en viðurkenndum að lokum að barnið yrði ekki ýkja ánægt ef það yrði svikið um glaðning. Við fjögur sem sátum eftir með sárt ennið drekktum sorgum okkar í hyldýpi tónlistarinnar (og má þakka iPod-num mínum og heyrnartólsinnstungutvöfaldaranum hennar Elísabetar fyrir það að hvert okkar gat hlustað með öðru eyranu).

Eftir að gleðin hafði komist á skrið á ný, ákváðum við að halda til Valborgar. Tókum sexuna að mig minnir heim til hennar. Þegar þangað var komið tókum við okkur til og spiluðum Trivial Pursuit. Valborg bar þar sigur úr býtum. Svo fórum við að ráðum Elísabetar og keyptum okkur nammi og fleira óhollt í Hagkaupum. Elísabet er nefnilega þannig úr garði gerð að þegar hún hefur ekkert að gera vill hún fagna því með að éta eins mikið af sætindum og hún mögulega getur meðan hún "kúrir". Þetta finnst mér ekkert minna en frábært viðhorf. Það eina sem hindrar að hún verði feit er að það er ekki oft dauð stund, endalaus lærdómur og próf í skólanum. Nú, eftir þennan nammileiðangur fórum við aftur heim til Valborgar og spiluðum þá Gettu betur. Ekki er unnt að tilkynna sigurvegara.

Þegar við þreyttumst á straumi ónauðsynlegrar visku, fannst okkur þjóðráð að smella einni hrollvekju í tækið. Carrie varð fyrir valinu. Hún var alveg fínasta afþreying þó að ekki mikið hafi gerst í henni. Hún er eiginlega tvískipt, annarsvegar unglingadrama frá áttunda áratugnum og hinsvegar hryllingsmynd. Í þesari mynd er besta bregðuatriði allra tíma, samkvæmt einhverjum lista hér um árið, en ég bjóst við meiru, hefði viljað kippast meira til.
Enn vorum við í kvikmyndastuði og horfðum því á 101 Reykjavík. Þessi mynd stóð fyllilega undir væntingum og meira til, enda fyndnari en flest íslensk kvikmyndaverk.

Meðan á kvikmyndaglápinu stóð, bættust vinkonur Valborgar í hópinn. Þær voru mjög fínar, reyndar svolítið ruglaðar á köflum en ekkert meira en við stærðfræðinördarnir. Kvöldið varð fjörugt og skemmtilegt og á stundum var nokkur metingur í gangi. Metingur þessi var leystur á margan hátt, svo sem með sjómanni, götuslagsmálum og ýmis konar perraskap, sem ekki verður farið frekar út í hér.

Mannskapurinn var orðinn mjög svangur um miðnætti og var því hringt á pítsu frá Pizzahöllinni. Valborg reyndi við pítsusendilinn og reyndar símaafgreiðslumanninn líka. Skömmu eftir pítsuátið héldum við Elísabet og Níels heim á leið. Ferðin kostaði mig 2000 kr. Leigubílar eru allt of dýrir. Ég bíð ennþá eftir næturstrætó.

Gærdagurinn var liður í tilraun minni sem ber heitið: "Hvað gerist ef stærðfræðinördar eru látnir eyða 15 tímum saman?" Tilraun lokið.