...c'est magnifique!

mánudagur, nóvember 15, 2004

Durex drepur

Já, góðir lesendur, sjónin er ekki að bregðast ykkur. Durex er að drepa okkur. Í bókstaflegri merkingu.

Það var í félagsfræðitímanum síðasta sem þessi merka uppgötvun var gerð. Allir störðu hálfsofandi á tilbreytingarlaust tjaldið sem var mettað af missniðugum félagsfræðihugtökum. Norðanvindurinn hvein og starrinn barðist hetjulega móti æðandi loftstraumnum. Casa Christi nötraði. Inni í stofunni tók umræðuefnið óvænta stefnu. Kennarinn vakti athygli á íbúafjölda og aukningu hans.

Íslendingar hafa verið iðnir í barnagerðinni, svo iðnir að félagsfræðingar á alþjóðavettvangi trúa ekki tölfræðinni. Á miðjum níunda áratugnum var meðalfjöldi barna á æviskeiði einnar íslenskrar konu 2,5. Það voru góðir tímar. Fólksfjölgun í landinu stuðlaði að velmegun í öllum kimum þjóðfélagsins. Foreldrar lýðveldisins hugsuðu sér gott til glóðarinnar og eygðu fagra framtíðardrauma, fulla af afkvæmum til að sjá fyrir sér í ellinni. Aukin barnafjöldi krafðist betri uppeldisskilyrða. Víða um land hófu að rísa betri skólar og gjörvalt samfélagið varð hlýrra og barnvænna. Börn þeirra tíma uxu úr grasi við ást og góða umönnun og urðu fyrirmyndarborgarar. Ríkið sá fram á bjartari tíma. Aukin fólksfjölgun hélst í hendur við auknar tekjur ríksins. Óspilltar ríkisreknar stofnanir litu dagsins ljós og reglubundnar greiðslur til skólanna urðu sjálfsagður hlutur. Í stuttu máli sagt: Ísland blómstraði.

Svo kom Durex.

Yfirdrifinn hræðsluáróður gegn kynsjúkdómum og kynsvalli skaut upp kollinum um land allt eins og engisprettufaraldur (oftar en ekki á vegum sjálfs getnaðarvarnafyrirtækisins). Viðhorf manna til kynlífsins breyttist á einu augnabliki. Þeir sem ekki keyptu rándýra smokka eða aðrar getnaðarvarnir voru álitnir saurlífsseggir og litnir hornauga í hinu nýja "siðmenntaða" þjóðfélagi. Auðtrúa almúginn neyddist til að setja upp Durex í stórum stíl. Meðaltal barna á hverja konu snarlækkaði. Í dag er fóksfjölgun lítil. Þjóðarbúið fór að tapa peningum. Það reyndi að rétta hlut sinn og einkavæðing hófst. Auðugir forstjórar blindaðir af græðgi hrifsuðu til sín völdin og áttu í samkeppni við aðra sams konar einstaklinga. Spilling tók völdin. Lítil fyrirtæki áttu ekki möguleika gegn risasamsteypunum og steyptust í bullandi gjaldþrot. Ríkið hélt áfram að tapa og traðkaði því á menntunarréttindum þeirra fáu barna sem eftir voru til að spara. Í stuttu máli sagt: Íslandi hrörnaði.

Allt þetta volæði á rætur sínar að rekja til Durex. Durex drepur. Ef manninum hefði verið ætlað að hafa plastslíður á getnaðarlimnum, svo að getnaður eða bara hvað sem er ætti sér ekki stað, hefði hann þróast þannig.

Svo ég segi bara eins og Valur, gamli bekkjarfélagi minn: "Who are we to mess with nature?"

Rétt er að taka fram að þessi pistill er ekki byggður á föstum grunni staðreynda heldur er þetta (næstum) tómt rugl. Þetta efni var heldur ekki til umræðu í félagsfræðitíma nema að mjög litlum hluta.