...c'est magnifique!

laugardagur, desember 11, 2004

Jól á næsta leiti

Fyrst það er búið að hóta mér lífláti og öllu illu þá skal ég skrifa nokkur orð. Ég hef núna nákvæmlega sjö mínútur áður en ég þarf að fara í matarboð þannig að ekki búast við neinu meistarastykki.

Ég er í prófum, sjö eru búin og þrjú eru eftir. Það hefur gengið ágætlega í flestum þessum prófum. Mér gekk þó alls ekki vel í stærðfræði og kenni ég stressi um það. Ég var 29 sinnum stressaðri í því prófi en í nokkru öðru prófi sem ég hef þreytt, þ.á.m. samræmdu prófunum. Nóg um prófin.

Ég hef ekki gert mikið af viti en að læra undanfarið, ætlaði þó í gær að vera sniðugur og birta myndir af öllum afmælisgjöfunum sem ég fékk en það fór út um þúfur, er víst búinn að henda öllum myndvinnsluforritunum mínum út. Fór áðan suður í Kaffitár og talaði við starfsmannastjórann um jólavinnuna sem ég nældi mér í þar. Vinnan verður víst þríþætt: líma-setja-færa. Það verður ágætt.

Ég hlakka mikið til jólafrísins. Þá þarf maður samt að gera heilmikið. Ég þarf t.d. að klára da Vinci Code sem ég hef ekki lesið neitt í í fleiri vikur. Svo langar mig að lesa Furðulegt háttalag hunds um nótt. Síðan þarf maður eiginlega að nýta jólafríið til að horfa á fjögurra diska settið af Return of the King, það tekur nú sinn tíma. Auðvitað má svo ekki gleyma jólagjafainnkaupunum.

En nú þarf ég að drífa mig. Slæmt að vera seinn í matarboð.