...c'est magnifique!

föstudagur, júní 24, 2005

Day Sixteen

Á miðvikudaginn (Day Fourteen) gerðum við mjög lítið. Tjillaðri geta dagar vart orðið. Sjónvarp, Oreo og PSP rændu deginum. Um kvöldið fórum við hins vegar í bíó, á sama stað og síðast, á Batman Begins. Fín mynd og góðar Íslandssenur. Þó fannst mér eitthvað vanta og hún ekki alveg standa undir þessu mikla lofi.

Í gær (fimmtudagurinn, Day Fifteen) hringdum við Héðinn á leigubíl um hádegisbil og fórum með honum í Best Buy búðina. Allnokkrar DVD-myndir keyptar þar. Starfsfólkið ekki alveg að standa sig í að taka af þjófavörnina á vörunum því á leiðinni út hringdi þjófabjallan á okkur. Starfsfólkið sagði okkur að halda bara áfram að labba. Þetta sama gerðist í öllum búðunum sem við fórum í þennan dag, Best Buy pokarnir ullu hringingu. Það gerði reyndar aldrei neinn neitt í málunum nema í einni búð, en hún sagði okkur líka bara að halda áfram að labba.
Úr Best Buy gengum við yfir bílastæði og fengum okkur ís á Dairy Queen. Fundum svo kvarterasíma og hringdum á annan leigubíl. Hann skutlaði okkur í mollið í Valencia, sem við fórum í á Day One, og gerðum enn ein innkaupin. Eftir góða gjaldeyriseyðslu tókum við svo síðasta Taxann heim.

Um kvöldið var svo komið að því... Billy Idol tónleikar í spjallþættinum Jimmy Kimmel Live. En fyrst fórum við á Carl´s Jr. í þeim tilgangi að fá okkur sex dollara hamborgarann sem Paris Hilton auglýsir í hinni umdeildu auglýsingu (sem er þó reglulega sýnd hér). Ég gekk ákveðinn að afgreiðslukonunni: "I´ll have two Paris Hilton burgers, please." En allt kom fyrir ekki. Hún sagði að þeir væru hættir með þá borgara og að þeir hafi aðeins verið með þá í kynningarskyni. Við sættum okkur við annan "Six Dollar Burger" sem var á matseðlinum.
Eftir þessa fínu borgara var leið okkar heitið til Hollywood í El Capitan Theatre á Hollywood Blvd., þar sem Jimmy Kimmel er tekinn upp, beint á móti Hollywood & Highland mollinu sem við fórum í á þriðjudaginn (Day Thirteen). Þar sem Skarpi vinnur hjá ABC, sem sýnir þættina, var hann búinn að redda okkur inn í græna herbergið baksviðs en þegar við komum þangað var okkur Héðni ekki hleypt inn vegna þess að þar var áfengi og við ekki orðnir 21. Þá fórum við fyrir framan sviðið við hliðina á stúdíóinu þar sem Billy Idol átti að troða upp en auðvitað áður í gegnum málmleitarhlið og tilheyrandi. Við vorum með fyrstu á staðinn og því nánast fremst. Eftir dálitla bið hófst svo þátturinn sem var varpað á tjald á sviðinu. Góðir brandarar hjá kallinum þetta kvöld og svo valdi hann latasta mann Bandaríkjanna. Eftir það kom Billy Idol í sófann hjá honum, svalur að vanda. Svo komu tveir hermenn eða eitthvað sem gættu Saddam Hussein í 10 mánuði í fangelsinu. Áhugavert.
Þá var komið að því. Eftir auglýsingabreik steig Jimmy á sviðið og kynnti Billy Idol og svo byrjaði hann að spila, sjálfur "sneer of the year". Hann tók einhver ný lög og svo gamla slagara eins og White Wedding og Rebel Yell. Fáranlega góður. Við Héðinn getum líka stoltir sagt frá því að við snertum hann, Héðinn fékk meira að segja heillangt handaband.
Eftir vel heppnaða tónleika fórum við heim.