...c'est magnifique!

fimmtudagur, júní 30, 2005

Day Gay

Hæ. Ég er þá kominn heim, kom á þriðjudaginn. Ég ætla að drífa í því að klára ferðasöguna í grófum dráttum (smáatriðin eru horfin úr minninu):

Á föstudaginn (Day Sixteen) eyddum við nærri öllum deginum í sundlauginni sem var glæsilegt. Ég tók þetta með trompi og var í Speedo. Héðinn líka en hann gafst upp eftir fimm mínútur. Ég hins vegar hélt mínu striki en var varaður við að vera of mikið uppi á rennibrautinni því að nágrannarnir gætu séð mig og hringt á lögguna. Fullevrópskt fyrir þessi kanagrey.

Á laugardaginn (Day Seventeen) keyrðum við Héðinn, Skarpi og Isabel niður í strandarbæinn Manhattan Beach og fórum á ströndina. Þegar við komum blasti við okkur hresst strandblaksmót kvenna. Staldrað aðeins við þar. Svo tók við sund í frekar köldum sjónum. Nokkuð góðar öldur þarna líka. Svo var stór hola grafin í sandinn og Héðinn grafinn þar ofan í þannig að aðeins sást í sólgleraugun og nefið.

Á sunnudaginn (Day Eighteen) fórum við öll í Northridge mollið þar sem allir áttu eitthvað erindi. Um kvöldið fórum við síðan á magnaðan veitingastað í kúrekastíl: Saddle Ranch. Afgreiðsludömurnar hressari en allt. Það leið svo ekki á löngu að Héðinn var ginntur af einni þeirra til að fara á stóra vélknúna nautið úti á miðju gólfi. En auðvitað ekki áður en hann skrifaði undir yfirlýsingu þess efnis að staðurinn bæri ekki ábyrgð á neinum meiðslum eða áverkum sem hann kynni að hljóta á nautinu. Héðinn stóð sig með prýði, það leið dágóður tími áður en hann hentist af. En ekki mátti ég fara á nautið, neee-ei. Ég er ekki orðinn átján. Puff.

Á mánudaginn (Day Nineteen), síðasta daginn okkar, tókum við því rólega og pökkuðum. Magnið í töskunni minni sirka þrefaldaðist í þessari ferð enda fengum við báðir Heavy-límmiða á okkur á flugvöllunum. Við kvöddum Lynneu og Bailey seinnipartinn og Skarpi skutlaði okkur á LAX. Á leiðinni fengum við okkur síðasta In-n-Out borgarann og Isabel hringdi úr day camp til að kveðja.
Við tók þessi venjulega flugvallarútína og við vorum komnir svo snemma að við höfðum klukkutíma til að myrða fyrir framan geitið. Vélin fór klukkan 20. Við vorum reyndar ekki mjög sáttir við Alaska Airlines því þeir gátu ekki tjékkað farangurinn okkar alla leið til Keflavíkur og við þurftum því að eyða þeim litla tíma sem við höfðum milli fluga á San Francisco International í að sækja töskurnar á færibandið og tjékka þær inn aftur. Þetta rétt hafðist og þegar við komum að hliðinu á International terminal-inu í SFO voru aðeins tíu mínútur í boarding.
Flugið heim var styttra en þegar við fórum út, tæpir átta tímar. Þetta var hins vegar stórfurðulegt flug því í byrjun flugsins var nótt en síðan birti þegar við mættum sólinni og fórum svo framhjá henni. Við komum síðan til Keflavíkur klukkan þrjú um daginn, næsta dag (þriðjudaginn, Day Twenty).

Ferðasögu lýkur.

Ég er reyndar ennþá á LA tíma. Vaknaði klukkan kortér í fjögur í dag, meira að segja seinna en í gær. Verð harðari við sjálfan mig á morgun.