...c'est magnifique!

þriðjudagur, júlí 19, 2005

Ónefnt

Eins og júní var nú góður bloggmánuður er júlí frekar slakur. Ég veit ekki beint hver ástæðan fyrir því er en ég mun leggja höfuðið í bleyti í leit að svari þegar fram líða stundir.

Þessa dagana er ég búinn að vera að vinna. Já, ég held ég hafi ekki einu sinni tilkynnt það á þessari ágætu síðu. Ég er sem sagt búinn að fá vinnu á Snæland Video. Þetta er fínasta vaktavinna og frábært starfsfólk vinnur þar, samstillt gegn illum yfirmanni sem hvorki finnst stöðluð laun né launaðir matartímar eitthvað til að bjóða starfsmönnum sínum upp á. Þrátt fyrir þetta svífur góður andi yfir vötnum þó að ekki sé hægt að segja það sama um tónlistina sem stanslaust streymir inn um silfraða hátalarana inn í funheita sjoppuna, beint frá höfuðstöðvum FM 957. Og alltaf sömu fokking lögin!

Annað í fréttum er að ég er kominn með æfingaleyfið. Mér hefur sem sagt verið sleppt lausum í umferðina án allra aukapedala eða reynsluríkra ökukennara. Fór í mína fyrstu æfingaakstursferð í dag inn í Reykjavík. Gekk bara mjög smurt.

Svo er það náttúrulega aðalfréttin. Maður er kominn með kvikindið í hendurnar, búinn að þukla vel á því og skoða það í bak og fyrir. Það er nú aðeins styttra en síðast en ég á örugglega eftir að hafa mjög gaman af því. Það er bara svo skemmtilegt að lesa góðar bækur.

Lag dagsins: Soundgarden - Pretty Noose
Pearl Jam-lag dagsins: Save You af Riot Act