...c'est magnifique!

fimmtudagur, nóvember 17, 2005

Villimennska í umferðinni

Hæ. Ég á afmæli á morgun. Sáttur við það. 17 ára. 18.11.88 kl. 18:11 var ég sem sagt fæddur. Svo á Ingibjörg afmæli 6 mínútum síðar. Gaman að því. Gerið ykkur svo greiða og hlustið á lag dagsins, Eyes Without a Face með Billy Idol.

Ég verð að segja ykkur frá því sem ég var að lesa í "VÍS fréttum" um ökuleiknikeppnina.
17 ungir ökumenn voru valdir til að taka þátt. Þeir áttu að vera með ökurita í bílum sínum í einhverja fjóra mánuði og keppnin snerist um það hver keyrði skynsamlegast. Tinna Guðrún úr Vogunum vann. Á þessu tímabili fór hún aldrei yfir hámarkshraða og keyrði svo fullkomlega og lýtalaust að fólkið hjá Vís hélt um stund að ökuritinn væri bilaður.
Ég get ekki annað en dáðst að þessu og aganum sem þetta hlaut að krefjast. Ókei, allt gott og blessað með það. Það sem hins vegar sló mig við þessa umfjöllun var svo ótrúlegt að ég get bara ekki orða bundist. Þetta sagði Tinna um aðra vegfarendur:

"Ég er ekki vinsæl á einföldu köflunum á Reykjanesbraut. Þegar ég keyri þar á löglegum hraða er á alltaf fyrir og aðrir ökumenn blikka ljósum, flauta og æða fram úr veifandi fingri upp í loftið. Það er kveðja sem ekki er hægt að misskilja. Á dögunum var til dæmis óþolinmóður jeppakarl á eftir mér á kaflanum milli Hafnarfjarðar og Vífilstaða. Hann spólaði skyndilega fram úr öfugu megin - hægra megin við mig! - og jós grjóti úr vegkantinum yfir bílinn minn svo sá verulega á lakkinu. Krakkar haga sér ekki svona heldur fullorðið fólk, jafnvel hjón með börn í aftursætinu. Þegar fjölskyldufaðir í helgarbíltúr sýnir mér fingur um leið og hann tekur fram úr með látum verð ég bara alveg gáttuð. Ég hef ekkert til saka unnið annað en að aka á löglegum hraða."

Vottðafokk?! Eru Íslendingar endanlega gengnir af göflunum? Í fyrsta lagi skil ég ekki hvers vegna nokkur maður ætti að sýna fólki puttann í umferðinni, nema þá til að hafa sjálfan sig að fífli, og hvað þá fjölskyldufólk! Í öðru lagi er það mér hulin ráðgáta hvers vegna fólk getur ekki hamið reiði sína og bölvað í hljóði í staðinn fyrir að þurfa að opinbera gremju sína með barnalegum fingramerkjum þegar bíllinn fyrir framan er einfaldlega á löglegum hraða. Ég verð nú að viðurkenna að ég hef oft orðið pirraður þegar ég er að keyra, en þá er það vegna þess að einhver braut umferðarlögin (annað en það sem hérna er verið að tala um), eins og til dæmis það að gefa ekki stefnuljós í hringtorgum en sú venja virðist by the way hafa dáið út með geirfuglinum. Aftur á móti hefur mér aldrei dottið í hug að sýna "fokkjú-puttann", það er bara eitthvað svo skelfilega kjánalegt við það.

En það eru ekki bara óbreyttir bílstjórar sem eru ekki vanir löglegum hraða því að lögreglan í Keflavík stöðvaði þessa Tinnu fyrir að aka grunsamlega hægt! Hún benti þá lögreglumanninum á að hún hafði verið nákvæmlega á hámarkshraða. Hann varð alveg hvumsa, farþegarnir í bílnum hlógu að honum og hann varð alveg eins og kleina.
Bíðið, það er meira. Þetta hafði mamma hennar að segja um þessa ökuleiknikeppni:

"Ég trúði því nú tæpast þegar Tinna lýsti körlum sem hömuðust á flautunni fyrir aftan bílinn hennar og gáfu dónamerki með fingri í kveðjuskyni. Svo var ég farþegi með henni í nokkur skipti og blöskraði alveg hegðun fólks. Einn tók til dæmis ólöglega fram úr okkur á aðrein í mikilli umferð í Fossvogi og sleppti báðum höndum af stýri til að gefa til kynna hvílíkir sleðar við værum í umferðinni. Svona hegðun bílstjóra er hreint með ólíkindum og vert að það komi fram að hér á ekki ungt fólk í hlut heldur fullorðið og ráðsett fólk."

Hrannar Freyr úr Kópavogi sem varð þriðji í keppninni sagði þetta:

"Mér var nokkrum sinnum réttur fingur um leið og óþolinmóðir ökumenn tættu fram úr. Einn keyrði alveg aftan undir bílinn hjá mér, þeyttist fram úr við fyrsta tækifæri, snarbeygði fyrir mig og bremsaði um leið til að ekki færi fram hjá mér að hann liði engan sleðahátt í umferðinni. Ekki nóg með það. Síðar sama dag vildi svo til að þessi sami ökumaður varð á vegi mínum og hafði engu gleymt. Hann skrúfaði niður rúðuna og æpti út um bílgluggann að réttast væri að taka mig úr umferð. Og ég sem hafði ekki gert annað af mér en aka á löglegum hraða."

Já. Ég stend eiginlega á gati. Er ástandið í umferðinni á Íslandi virkilega komið á það stig að ökumenn verði fyrir grófu aðkasti og leiðindum brjóti þeir ekki lögin?