...c'est magnifique!

þriðjudagur, ágúst 30, 2005

Sjoppuvitfirring

Þá er skólinn byrjaður aftur eftir frábært sumarfrí. Nú er maður kominn í hinn ágæta bekk 4. X og líst mér vel á hann. Svolítið skrítið að vera í fjórða bekk. Maður er ekki yngstur en heldur ekki elstur og ekki einu sinni að fara að verða elstur. Jébb, svona er þetta. Maður er bara enginn sérstakur. Ég held samt að það verði ennþá skemmtilegra í ár en í fyrra því nú hefur maður reynsluna og veit hvernig best er að spila úr sínum spilum, ef ég mætti orða það þannig. Mjög skemmtilegt svo að sjá alla busana og vita nákvæmlega hvernig þeim líður. Vita ekki í hvorn fótinn á að stíga.
Nú eru allsherjarframkvæmdir í gangi í Casa Nova (stærstu byggingu menntaskólans, sem er þó ekki Gamli skóli sem trónir yfir Lækjargötunni) og er því hluti hennar lokaður, m.a. Cösukjallari, okkur öllum til ama. Anyway, á föstudaginn í enskutíma þegar við vorum að hlusta á smásögu á spólu heyrist þetta allsvakalega brothljóð, eins og eitthvað gríðarþungt hafi fallið í jörðina, sem fær marga til að hrökkva við (ekki mig samt, ég geri ekki svoleiðis). Við brugðumst skjótt við, fórum út í glugga og sáum kranabíl alveg upp við húsið og dæld í steypuvegg sem stendur aðeins út úr því, rétt í tæka tíð til að sjá ókumannsfantinn bakka aftur inn í vegginn á sama stað á leið sinni um svæðið. Þessi maður virtist ekki hafa kynnt sér hutakið hliðarspeglar og það sem meira er fór þrjóturinn ekki einu sinni úr kranabílnum til að kanna ástandið heldur keyrði bara áfram inn á vinnusvæðið. Nokkrir bekkjarbræður mínir óskuðu eftir áfallahjálp en fengu ekki.

Það fór svo allsvakalega lítið fyrir helginni, hún bara hvarf. Vann alla helgina svo hún hefur viljað hefna sín á mér með því að vera alltof fljót að líða. Föstudagskvöldsvaktin var þó heldur betur afdrifarík. Þannig er mál með vexti að það var alveg óhemjumikið að gera (eins og reyndar alltaf um helgar en þetta var extreme case) og við of fáliðuð til að sinna öllum þessum fjölda. Þá var nýr starfsmaður sem var í ísnum og átti heldur betur undir högg að sækja. Svona ný og óreynd fór stelpan alveg í kerfi (skiljanlega) og kom til mín alveg miður sín og bað mig um að taka við af sér því fólk væri alveg orðið brjálað á að bíða, sumt farið að labba út og hún að klúðra málunum. Jújú, sálfsagt sagði ég og tók mér stöðu við ísborðið. Þar var maður um fertugt sem nýi starfsmaðurinn var greinilega í miðjum klíðum að afgreiða og lætur hann það strax flakka að hann hafi beðið lengi lengi eftir áframhaldandi afgreiðslu en maðurinn sá var kominn með einn bragðref fyrir framan sig. Hann skipar mér að gera fyrir sig annan bragðaref og ég geri eins og mér er sagt. Geri ég allt rösklega því margt fólk var að bíða en gaurinn rekur sífellt á eftir mér og það á frekar dónalegan hátt. Eftir að hafa fengið refinn segir hann mér að drífa mig með annan og finn ég þá þessa miklu áfengislykt út úr honum. Ég geri annan bragðaref og svo sjeik og eitthvað og enn rekur hann á eftir mér. Þá byrjaði ég nú að verða frekar pirraður á þessum kalli með sitt rauða andlit og útstandandi, vatnskenndu augu og spurði hvort það væri eitthvað fleira. Nei, segir hann. Ég reikna þetta saman og segi honum upphæðina. Þá lítur hann á mig hneykslaður og þvertekur fyrir að borga það. Segist hann hafa beðið svo lengi að hann vilji fá fyrsta refinn frían. Ég var nú ekki á leiðinni að láta það eftir þessum dónalega og drukkna manni og neita því, hann verði að borga alla upphæðina. Þá verður maðurinn æfur. Hann byrjar að rífast við mig mjög hátt og segist hafa beðið svo lengi að fyrsti bragðarefurinn hafi bráðnað og að hann sé með fjölskyldu og börn heima sem hann geti ekki boðið bráðinn ís. Ísinn var ekki bráðinn, hann var í fínu ástandi. Ég stend fast á mínu og segi eins og er að ég hafi ekki leyfi til að gefa fólki frían ís. Þetta var greinilega dropinn sem fyllti mælinn hjá manninum því þarna fór hann að öskra. Já, fullur maður öskrandi eins og fífl í sjoppu að hann vilji fá frían ís því hann er með fjölskyldu heima sem hann geti ekki boðið henni bráðinn, þvílíkur fyrirmyndarfaðir. Ég segi honum að hann geti bara borgað ísinn eða farið út og þá byrjar hann með einhverjar svívirðingar svo sem hvað ég væri nú lélegur að gera honum ekki þennan greiða, ég svona ungur maður á framabraut eins og hann orðaði það. Ekki veit ég hvernig hann fékk það út, hann hefur greinilega álitið sjoppuafgreiðslu ávísun á velgengni í framtíðinni. Eftir meira tilgangslaust rifrildi vill hann endilega að ég hringi í eigandann því hann ætlaði sko ekki að borga fyrir bráðinn ís (sem var á þessum tímapunkti farinn að bráðna, þökk sé heimskunni í þessum manni að rífast um eitthvað jafnfáránlegt).
Ég fer afsíðis og hringi í eigandann og segi henni stöðu mála. Hún með sína eftirlitsmyndavélaskjái heima hjá sér lókeitar hann á skjánum og ég bið um ráðleggingar. Hún ákveður að það sé best að ég gefi ruddanum þennan bévítans bragðaref sem ég er ekkert alltof sáttur við. Var að vonast eftir einhverju meira eins og: "taktu bara allan ísinn af borðinu og segðu honum að drullast út og hótaðu annars að hringja á lögregluna." Jámm, ég var orðinn það pissed á manninum. Ég hélt aftur af mér og sagði honum að eigandinn hefði gefið grænt ljós á að hann fengi fyrsta ísinn frían. Ég dreg fjárhæðina frá og gef honum upp upphæðina. Þá gerist það sem ég botna alls ekkert í og fær mig endanlega til að trúa því að maðurinn sé alvarlega vanheill á geði. Eftir að hafa rétt mér kreditkortið verður hann brjálaðri og rauðari en nokkru sinni fyrr. Byrjar hann aftur með einhvern dónaskap um hvað þessi "búlla" sé ömurleg og ég líka. Þegar hann lýkur við að kvitta á posakvittunina stekkur hann upp skelfilega asnalega og grýtir henni í borðið sem hefði örugglega verið mjög fyndið ef ég væri ekki svona pirraður. Ég skil ekki enn af hverju hann tók þetta kast þegar ég var búinn að gera eins og hann vildi. En ekki var hann hættur, ónei. Nú var hann farinn að halla sér fram á búðarborðið (sem hann hélt örugglega að væri mjög ógnandi) og heimtaði númerið hjá eigandanum á þessari "búllu". Það ætlaði ég sko ekki að gera (enda má ég það ekki) og þurfti að hlusta á meira bull um börnin hans heima sem biðu eftir ísnum sínum. Að lokum blandaði einhver, sömuleiðis drukkinn, vinur hans sér í málið og reyndi að drífa kauða af stað heim á leið. Það síðasta sem ég heyrði í þeim þegar þeir gengu út var að þeir gætu auðveldlega fundið númerið hjá "búllueigandanum" seinna og þá mundu sko hausar fjúka!

Það eru nákvæmlega svona atvik sem fá mann til að missa trú á mannkynið.

fimmtudagur, ágúst 11, 2005

China Gunpowder

Afsakið letina í mér. Ég hef ekki bloggað svo lengi að ég verð að krota eitthvað. Þetta er alveg til háborinnar skammar hjá mér miðað við suma, t.d. Hildi. Hún er gersamlega on fire. Alltaf eitthvað nýtt og skemmtilegt á hennar bloggi.

Héðinn hefur síðustu daga verið að reyna að finna upp á nýrri ofurhetju til að vera í grímupartíi sem verður haldið í íbúðinni hans annað kvöld. Ég hef verið að hjálpa honum og er kominn með hugmynd: Simon Super-Cock. Ójá, grípandi og krassandi. Sjáiði þetta ekki fyrir ykkur? Þröngur hvítur galli og rauðar nærbuxur yfir. Svo er það bara uppþvottahanskinn á hausnum og til að kórona þetta er lítill vandi að hafa góða mynd af brjáluðum hana á bringunni. Getur ekki klikkað.

Á morgun er svo langþráð bekkjarpartí/kveðjuhóf Guðjóns. Guðjón er að fara sem skiptinemi til Túnis í Afríku og er því eins gott að við kveðjum hann með stæl. Öðlingurinn Halla heldur gleðina. Það munaði svo bara mjóu að ég kæmist alls ekki. Átti að vera á vakt í sjoppunni annað kvöld en ég náði að skipta vöktum. Talandi um vinnu er ég líka að vinna í Kaffitár í Njarðvík. Nú er ég inni á lager að taka til pantanir og svoleiðis sem er miklu skárra en að loka pokum og merkja. Fojj.

Ótrúlegt hvað nokkur góð lög til að hlusta á í vinnunni geta hresst og komið manni í gott skap. Mæli með að þið hlustið á þessi lög einu sinni í gegn, ég ábyrgist skemmtun:

Portishead - Numb
Portishead - Glory Box
Elliott Smith - Bottle Up and Explode!
Maus - My Favourite Excuse
Air - All I Need
Sigur Rós - Starálfur
David Bowie - Ziggy Stardust
Smashing Pumpkins - 1979

Við eigum nokkrar myndasögubækur sem heita B.C. og ég las í tætlur þegar ég var yngri. Þær fjalla um líf steinaldarmannanna á forsögulegum tíma. Hremmingar þeirra við gerð hjólsins og fleira kostulegt. Hérna er ein ræma:

mánudagur, ágúst 01, 2005

Gleð-ipúk-inn

Nú er víst mánudagur, frídagur verslunarmanna. Eða reyndar allra annarra en verslunarmanna. Vinna í kvöld.

Það er búið að vera ofurrólegt í vinnunni um helgina sem er mikil tilbreyting því það er alltaf brjálað að gera. Svo erum við svo mörg að vinna að þetta nær engri átt. Í gær vorum við fimm. Algjört rugl.

Ég fór á Innipúkann í gær. Ég ætlaði að fara á báða dagana en það var uppselt þegar ég fór að kaupa miða á laugardagspúkann. En eins og ég segi þá fór ég í gær. Hitti Hildi og Elísabetu í 10-11 og svo fórum við á Nasa. Og eins og búast mátti við var ég beðinn um skilríki. Argasta vesen. Kom síðan aftur eftir um tuttugu mínútur og komst þá greiðlega inn án þess að vera spurður. Second time's the charm. Ingibjörg og Vaka komust líka inn í annarri tilraun. Sáum eitthvað af Dr. Spock, svo Hjálma, Blonde Redhead, örlítið af Hudson Wayne, Singapore Sling, Raveonettes og svo hina einu sönnu sexy beasts í Trabant.

Blonde Redhead var fyrir mér langbest. Jafnvel bestu tónleikar sem ég hef upplifað. Damn! Þrátt fyrir bara átta laga sett. Þetta voru brilliant valin lög hjá þeim. Við Hildur töluðum um hvaða lög við vildum að þau tækju þegar þau voru að stilla upp (sem tók b.t.w. ógeðslega langan tíma) og nefndi ég Falling Man og hún In Particular og svo Equus. Og viti menn. Fyrstu tvö lögin sem þau tóku voru einmitt Falling Man og In Particular. Svo tóku þau Melody of Certain Three, Anticipation, Maddening Cloud, Pink Love, Equus (ekki endilega í þessari röð) og svo eftir rosaleg fagnaðarlæti kláruðu þau þessa kynngi mögnuðu tónleika með Elephant Woman. Svakalegt.

Singapore Sling voru líka ansi svöl. Alltaf svo skondið og furðulegt að hugsa sér að Bíbí bassaleikari sé dóttir Ásgeirs Árna, íslenskukennara og snillings með meiru.

Raveonettes létu bíða frekar lengi eftir sér og verkir í fótum farnir að segja til sín enda ég búinn að vera meira og minna á fótum frá klukkan tíu um morguninn. Þreyta fór líka að skjóta upp kollinum þrátt fyrir þrefaldan expressó á fastandi maga. Slíkt vesen hvarf samt alveg þegar danski dúettinn spilaði sín bestu lög eins og Love in a Trashcan, My Boyfriend's Back, Ode To L.A. og Little Animal. Góður texti í Little Animal:

My girl is a little animal
She always wants to fuck
I can´t find the reason why
I guess it´s just my luck

So at night when she´s sound asleep
I head out in the rain to meet

All the things she never gave
To me when I was down
All the things I had to find
With strangers in strange towns

But at night when she´s curled up next to me
I head out for the devil to meet

Þá var komið að Trabant. Ætli hún sé ekki bara besta ballhljómsveitin á Íslandi í dag? Hressir dúddar. Tóku bestu lögin og gerðu það vel.

Eyjar oj! Innipúkinn vei!

Þangað til næst, bless!