...c'est magnifique!

föstudagur, október 28, 2005

Blíp...blíp...blíííííí

Nú get ég loksins náð andanum. Hef ekki getað gert það í tvær vikur eða svona næstum því. Þessi vika hefur verið einum of brjáluð. Efnafræðipróf, tölvufræðipróf, Jón Hólabiskup Arason-fyrirlestur, dönskukjörbókarpróf, Halldórs þáttur Snorrasonar hinn síðari-fyrirlestur og Animal Farm-próf gerðu mér lífið leitt í þessari hektísku viku. Já, þetta var allt í einni viku. Eins og vel troðið burrito á Snæland Video. Talandi um Snæland þurfti ég í ofanálag að vinna á föstudaginn og laugardaginn um síðustu helgi en losnaði blessunarlega við sunnudagsvaktina. Þarf að fara að hætta í þessari vinnu. Eða allavega fá færri vaktir.

Svo gerðist ömurlega leiðinlegt atvik á þriðjudaginn. Strætóbílstjórinn á 22 ákvað að slugsa í starfi um morguninn og mætti upp í Ásland sex mínútum of seint. Djöst mæ lukk. Þegar 22 komst loksins niður í Fjörð var Ásinn inn í Reykjavík náttúrulega farinn.
-"Já, það getur verið að hann sé farinn, annars veit ég það ekki. En hann er náttúrulega á 10 mínútna fresti þannig að það er allt í lagi." Nei, herra strætókall, hann var ekki á 10 mínútna fresti. Eftir 20 mínútna bið niðri í Firði renndi S1 í hlað. Og jú, tölvufræðiprófið var í fyrsta tíma. Og jú, tíu mínútur í það. Og jú, ég var enn í Hafnarfirði. Og jú, MR er í Reykjavík. Og jú, það var ekki séns að ná því. Djöst mæ lukk. Mætti 20 mínútum of seint. Og jú, tölvufræðiprófið hálfnað. Og nei, ekki hægt að klára tölvufræðipróf á þeim tíma. Fór í staðinn á Íþöku að lesa yfir sögufyrirlesturinn minn. Fann tvær villur í ártölum og breytti þeim. Þær hefðu líklega farið framhjá mér hefði ég ekki verið of seinn í prófið (þegar ég segi ég var seinn þá meina ég strætó var seinn... helvískur) og farið að lesa yfir fyrirlesturinn til að drepa tímann. Tilviljun eða örlög? Af því leiðir að alheimurinn er að segja mér að saga sé mikilvægari en tölvufræði, P(x)=y og allir eru ánægðir.

Svo eru einhver skemmtilegheit í farvatninu fyrir helgina. Ví!

Kem með skemmtilegri færslu síðar. Hvenær sem það verður. Á meðan getiði dáðst að vitfirringu Héðins.

Franska dagsins: "Je pense, donc je suis." Þýðing: "Ég hugsa, því er ég."

Salut!

föstudagur, október 14, 2005

Lalala ... til Mexíkó!

Vá hvað árshátið Skólafélagsins í gær var geeeðveik. Ég er ekki frá því að þetta hafi verið skemmtilegasta ballið síðan ég byrjaði í MR. Dem. Gott, maður.
Svona var þetta: Morgunpartí hjá Maríu -> Keila -> Heim í sturtu og klæða sig -> Árshátíðarmatur á Broadway og skemmtiatriði (Þorsteinn "fokking" Guðmundsson kynnti) -> Heim til Alla að drepa tímann þangað til að fyrirpartíið byrjaði (enduðum á að spila við mömmu hans) -> Fyrirpartí hjá Arnari (massastuð og gleði) -> Strætóferð á ballið (aldrei hefur verið jafnskemmtilegt í strætó) -> Ball á Broadway með Milljónamæringunum og góður sambafílingur myndaðist (Raggi Bjarna leit svo við og tók nokkur lög) = gleði, gleði og engin ógleði.

Litli sólargeislinn hún Vaka klukkaði mig. Og ég held að það feli í sér að ég á að koma með fimm staðreyndir um sjálfan mig. Þið megið hins vegar meta hvort þær séu tilgangslausar eður ei. Njótið.


1. Ég er duttlungafullur og var viðurstyggilega duttlungafullur fyrir nokkrum árum. T.d. þurfa hlutirnir á náttborðinu mínu helst að vera á ákveðnum stað á því. Fjarstýringarnar láréttar fremst á borðinu, útvarpsvekjaraklukkan í miðjunni, úrið á ská í fremra hægra horninu og gleraugun lóðrétt hægra megin við klukkuna.

2. Mér finnst óþægilegt ef það er mikið drasl í herberginu mínu og t.d. ef það er mikið af blöðum á matarborðinu þá þarf ég að taka þau saman til þess að koma í veg fyrir pirring.
 
3. Litluputtarnir mínir eru skakkir.

4. Augun mín eru ekki eins á litinn og ég er með brúnan blett í því vinstra sem stefnir á yfirráð yfir því.
5. Ég er næstum heyrnarlaus á vinstra eyra.


Já, þar hafiði það. Ég hef greinilega margt óhreint í pokahorninu.

Öppdeit: Átti víst að klukka fimm aðrar manneskjur. Ég klukka því Héðin, Sigtrygg, Elísabetu, Ragnheiði og Valborgu.

laugardagur, október 08, 2005

MR - best í heimi!

Ójá, gott fólk. MR marði fram sigur gegn erkióvininum verzló á MR-ví deginum í gær. Við unnum flestar þrautirnar í Hljómskálagarðinum um daginn og einnig sjálfa ræðukeppnina sem fram fór í verzlunarskólanum. Ég er ekki frá því að margur Mr-ingurinn hafi fengið snert af víðáttufælni inni í þessu gímaldi. En já, umræðuefnið var vopnaður friður og mælti MR á móti. Jón Eðvald fór gersamlega á kostum og líkti meðal annars yfirvofandi atómbombuárás við yfirvofandi prump. Sjíett það var fyndið. Hins vegar var hann ekki kosinn ræðumaður kvöldsins en einhver verslingurinn hlaut þann heiður.

Eftir þennan sæta, sæta sigur var haldið á tebó. En nei, eitthvað bull í þessu fólki sem hélt þetta, engin skipulagning á þessu og gleðihaldarar ljúgandi upp í ermina á sér hvað eftir annað að staðurinn væri fullur og að aðeins MR-ingar kæmust inn. Svo var þetta sama fólk að hleypa greinilegum ó-Mr-ingum og vinum sínum inn, troðandi þeim í gegnum MR-mannþröngina sem beið fyrir utan hurðina. Að lokum nenntum við þessu ekki og fórum.

Næsta vika er svo árshátíðarvika Skólafélagsins sem verður án efa mö-högnuð. Frí verður svo á fimmtudag og föstudag vegna árshátíðarinnar sjálfrar sem verður á fimmtudaginn. Ef þetta verður eitthvað í líkingu við það sem var í fyrra verður þetta mændblóing og breþteiking og þar fram eftir götunum. Á fimmtudaginn er held ég planið að fara í morgunpartí til hennar Maríu, svo eitthvað villt keiludjamm. Eða eins villt og það getur orðið. Er ekki alveg viss á öllum díteilunum. Eða fyrirgefið, ég meinti smáatriðunum. Talandi um svona málnauðgun, hvað í andskotanum er málið með "Íslenska bachelorinn"? Af hverju bachelor?! Á þetta að vera töff? Þetta er nú ofarlega á hallólistanum mínum verð ég að segja.

Ég verð að deila með ykkur einum sjoppugullmola sem átti sér stað fyrir frekar löngu siðan en rifjaðist upp fyrir mér um daginn. Þannig var mál með vexti að tvær stelpur voru við afgreiðsluborðið og það var verið að afgreiða aðra þeirra. Ég spyr hina hvort þær séu saman (eins og maður gerir við þessar aðstæður) og þá fara þær að flissa og segja já og spyrja svo hvort ég vilji vita eitthvað fleira um þeirra einkamál. Ég hefði náttúrulega átt að spyrja þær hvort þær vildu kjöt í þá samloku en það hefði kannski verið óviðegandi.

Að lokum, kíkið á þetta.

Lag dagsins: Do You Believe in Love með Huey Lewis and the News