...c'est magnifique!

þriðjudagur, september 12, 2006

Tré í skugga

Reif-reif, reif-reif-reif-reif, reif-reif-reif-reif... og svo framvegis. Reif-busaballið var á fimmtudaginn og það var geðveikt!

Skólinn er líka mjög fínn. Maður getur samt orðið örlítið móðursjúkur ef maður hugsar um allt sem er framundan og allt sem á eftir að læra en það er bara gaman. Jú, víst, Bjarni, það er gaman.

Á laugardaginn er svo fjallganga (sem gefur manni frí í leikfimi í mánuð) sem ég held að geti ekki verið annað en algjör snilld. Allavega var göngufundurinn í dag mjög fjörugur. Í það minnsta mun enginn gleyma rúsínu né leghlíf heima. (Hahahaha...)

Bóbó gullfiskur hefur verið í pössun hjá okkur meðan eigendurnir brugðu sér út fyrir landsteinana. Hann er voða hress. Syndir einn um í sínu kúpta fiskabúri og unir sér vel við sínar flögur af fiskamat tvisvar á dag. Sérstaklega verður að passa að hann fái ekki of mikinn mat. Því þá deyr hann. Það er eitthvað mjög ónáttúrulegt við að geta ekki ákveðið sjálfur hversu mikinn mat óhætt er að éta áður en hann verður manni að bana. En það er víst ekki við Bóbó að sakast. Hann er ekki beint náttúrulegt dýr. Hann er bara ræktaður eins og hvert annað grænmeti til að mæta kröfum okkar. Afkvæmi ótal fiska, tilneyddum til að fjölga sér. Bóbó er sem sagt úrvalsgenablanda. Að því gefnu, þ.e.a.s., að úrvalsgullfiskur sé skilgreindur út frá því að vera frábær í að lifa í skál með vatni og skömmtuðu fiskafóðri. Nei, Bóbó er ekkert svo frábær. Hann hefur gríðarstóran sporð og ugga og dúllerí sem Darwin sá ekki fyrir. Og bráðum snýr náttúran sér í votri gröf undir uppistöðulóni í nafni eyðileggingar og vonbrigða og bölvar manninum.

Erum við ekki öll eins og Bóbó: Innantóm... en falleg.