...c'est magnifique!

þriðjudagur, mars 22, 2005

Páskafrí

Ég hef ekki gert neitt í þessu páskafríi, það ætti að kæra mig. Kærið mig.

Ég væri nú alveg til í að fara upp í sumarbústað og skemmta mér eitthvað þar. Það væri líka helmingi skemmtilegra ef maður væri með bílpróf. Og það væri enn skemmtilegra ef það væri kominn heitur pottur þarna upp frá.

Ég fíla Everwood-sápuna á Stöð 1. Ég veit, ég er hæper kúl.

Pabbi á afmæli í dag. Ég fór því í dag að leita að einhverju sniðugu internetsafmæliskorti til að senda honum í vinnuna. Endaði á síðunni hjá Hallmark þar sem var úr mörgu að velja:
Þetta fannst mér t.d. sjúklega fyndið. Sérstaklega: "Hold on, Harold, hold on!" Haha! Klassík...
En þar sem pabbi er ekki enn farinn að missa hárið ákvað ég að halda áfram að leita. Mér fannst þetta aðeins of væmið og jolly fyrir minn smekk, lagið gerði alveg út af við þetta.
Svo fann ég þetta helvíti netta kort og ákvað að senda kallinum það. Þá vitiði það.

Ég vil þakka Hildi Kristínu fyrir að kynna mig fyrir The Shins. Diskurinn Chutes Too Narrow er gullmoli.

Example


Verð að bæta þessa færslu eitthvað. Hérna er gott fólk á góðu kvöldi:



Hérna er mjög gott fólk á mjög góðu kvöldi:



Og út af því að páskarnir eru á næsta leiti:

Einu sinni var lítill saklaus páskaungi



sem dó.


Gleðilega páska, allir!

miðvikudagur, mars 09, 2005

Hybris

Búinn að vera einn heima í tólf daga. Gengur frábærlega. Maður hefur frelsi til að gera það sem maður vill, þegar maður vill það. Matartíminn er ekki fastur, það gildir bara gamla frummannalögmálið: að borða þegar maður er svangur. Sem er náttúrulega miklu sniðugara og heilbrigðara (eða ætti allavega að vera það). Maður fær sig líka til að gera ótrúlegustu hluti þegar maður þarf í raun og veru að gera þá, eins og t.d. að setja í vél. Búinn að gera það. Tvisvar. Hengdi líka upp. Ég er ekki heldur frá því að einkunnirnar mínar hafi hækkað á þessum tólf dögum. Miklu meiri friður til að læra.

Fór á Músíktilraunir í gær í Tjarnarbíói. Þar var Gummi og hljómsveitin hans, The Dyers að keppa. Og viti menn. Þeir stóðu sig líka bara svona prýðilega og Gummi plokkaði bassann af svo mikilli ákefð að áhorfendur kusu þá áfram á úrslitakeppnina sem fram fer 18. mars í Austurbæ. Congrats, strákar. Hljómsveitin Motyl komst líka áfram en söngvarinn í henni er skuggalega líkur Nathan í One Tree Hill.

Alveg þrír kennarar í dag forfölluðust. Ég veit ekki alveg hvað er að koma fyrir þessa vösku kennara í MR. Alltaf einhver veikur undanfarið. En ekki kvarta ég. Það gerðist svo í dag að við fengum frí í tvo tíma, plús matarhlé. Fórum nokkrir á Nonnabita svo í 10-11. Vissum síðan ekkert hvað við áttum að gera. Þá kom Gummi með brilljant hugmynd: fara að horfa á Alþingi. Ég varð alveg yfir mig ánægður með þessa tillögu enda hefur mig lengi langað að sjá þetta með berum augum en sumir voru efins. Við drógum því efasemdarmanninn Alla með í átt að Alþingishúsinu. Fórum svo inn um einhvern sérinngang og upp hringstiga. Komum svo upp þar sem lögreglumaður vaktaði innganginn að "áhorfendabekkjunum". Sagði hann okkur að slökkva á farsímum og spurði síðan hvort við værum með sprengjur. Ég kvaðst hafa skilið mína eftir heima. Hann hló og vék úr vegi. Svo settumst við niður í fimm sæti af þessum 24 sem þarna eru. Vorum einir að horfa á. Það voru sárafáir þingmenn þarna fyrir neðan, kannski var matarhlé. Þó var einhver umræða um urriðastofninn í Þingvallavatni. Kannski ekki það áhugaverðasta en hvað um það. Þetta byrjaði allavega vel þegar fundarstjórinn mismælti sig og var næstum búinn að bjóða "utanríkisráðherranum" Halldóri Ásgrímssyni að koma upp í pontu. Það var greinilega einhver hiti í mönnum og "feis" gengu manna á milli. Það var allavega gaman að fylgjast með þessu.

Í anda Verðstríðsins ógurlega gerði ég verðsamanburð á einni vöru í 10-11 (þótt þeir séu ekki þáttakendur í umræddu stríði) og Bónusi.

Nóa Síríus páskaegg nr. 7 :
10-11: 2999 kr.
Bónus: 1299 kr.

Bónus býður betur. Miklu betur. Nú hefur þessi síða loksins öðlast tilgang. Fólk sem les hana fær gullnar upplýsingar um góð kaup. Ég sparaði kannski einhverjum 1700 kr.

E.S.: Vó, dollarinn er kominn niður fyrir 60 krónurnar. Maður ætti kannski að "græða" og láta mömmu og pabba kaupa eitthvað af viti fyrir sig.