...c'est magnifique!

þriðjudagur, september 28, 2004

Aftur til fortíðar

Vegna yndislegs iðjuleysis hóf ég fyrir stundu að kíkja á gömul ritverk eftir sjálfan mig. Ég tvísmellti á ritgerðamöppuna fullur tilhlökkunar og galopinn fyrir sæluvímu hinnar himnesku nostalgíu. Ó, hvað hún kom. Ég renndi í gengum stíla og ritanir tíundu bekkjar án þess að blikka né anda. Ég spenntist allur upp í stólnum, æstur í meira (ath. óæskilegt er að taka þessa setningu úr samhengi). Loks kom ég að forvitnilegri möppu: "8. bekkjar verkefni". Fikraði ég þá músabendlinum rólega að henni og sleit hana upp. Þar inni blöstu við mér alls kyns kræsingar sem voru margar hverjar ansi skondnar. Nú ætla ég að leyfa ykkur, lesendur góðir að njóta þess að lesa 8. bekkjar ritunina "Smáralindin" eftir Bjarna Þorsteinsson. Njótið.


Hjónin Marta og Jónas voru ekki alltaf sammála og Marta átti það til að vera svolítið stjórnsöm. Hún hafði alltaf eitthvað að segja um allt og var Smáralindin engin undantekning.

“Nei, nei og aftur nei, þú ferð ekki fet Jónas minn...”

“En-“

“Ég sagði nei. Þú ferð ekki í þessa heimskulegu verslunarmiðstöð.”

“Þú leyfir mér aldrei að gera neitt, en heyrðu, af hverju er ég að rífast við þig? Ég þarf ekki samþykki þitt til að gera eitthvað. Héðan í frá geri ég það sem mig langar til.”

“Ég er viss um að ég hef eitthvað að segja um það.”

Jónas hafði fengið nóg og strunsaði útí bíl. Hann setti í gang og keyrði áleiðis til Smáralindar. Það gekk mjög illa að finna bílastæði en loks fann hann eitt langt frá byggingunni. Hann var orðinn óþolinmóður og hljóp í áttina að verslunarmiðstöðinni. Þegar hann var næstum kominn snarstansaði hann. Fyrir utan hafði myndast löng röð. Við hliðina á röðinni stóð einhver starfsmaður sem hrópaði yfir allan hávaðann í fólkinu: “Því miður kemst ekki fleira fólk inn. Byggingin þolir ekki svona mikið álag. Komið aftur seinna.” Rétt í þessu stoppaði leigubíll fyrir aftan Jónas og út úr honum kom Marta, konan hans. Jónas var orðinn mjög reiður, hann ætlaði ekki að láta hana koma í veg fyrir að hann færi inn í Smáralind. Hann hljóp að dyrunum, ýtti fólkinu frá og steig inn í verslunarmiðstöðina. Marta hljóp á eftir honum. “Af hverju vildurðu ekki að ég kæmi hingað?” sagði Jónas þegar Marta var komin inn. “Því ég var ekki mjög ánægð þegar þú varst svona æstur í að skoða risastórt ty-” Smáralindin hrundi.


Svona var víst fílingurinn fyrir þremur árum. Hver veit nema ég birti eitthvað fleira sniðugt úr gagnasafni mínu seinna.

sunnudagur, september 26, 2004

Eat my shorts

Hmm.. ég hef ekki hugmynd um hvernig skal byrja svona færslu, á maður alltaf bara að segja "Jæja" eða "Halló" eða eitthvað álíka flatt og leiðinlegt? Hvernig væri að brjóta alltaf ísinn með brandara? Nei, kannski ekki. Það væri auðvitað sniðugt að ræða lítillega um eitt afbrigði af kvarsi í upphafi hvers pósts enda af nógu að taka. Ekki? Jæja þá. Ætli ég gefi ekki bara skít í þetta allt og láti það nægja að stinga mér á bólakaf í viðfangsefnið og líta aldrei um öxl... jú, það er málið.

Ég sit hér við tölvuna og tek mér pásu frá öllum kvarsafbrigðunum (hey, what are the odds?), allur lurkum laminn eftir strangt paintballmót sem ég tók þátt í í gær ásamt nokkrum bekkjarfélögum mínum. Mótið var hin fínasta skemmtun þó að okkur hafi ekki gengið sem skyldi (unnum engan en gerðum þó tvö eða þrjú jafntefli). Ég hef þó sterkan grun um að brögð voru í tafli enda virtust andstæðingar okkar alltaf hafa forskot á okkur sem oftast var í formi betri sjónar. Þannig er nefnilega mál með vexti að grímurnar þarna voru og eru alveg hroðalega gallaðar (í það minnsta okkar grímur) því ef maður andaði venjulega kom þessi massíva móða á glerið með þeim afleiðingum að maður sá lítið sem ekkert, svo bætti ekki úr skák að við spiluðum flesta leikina í myrkri og horfðum beint í einhver ljós sem fyrir tilstilli móðunnar blinduðu okkur alveg.

Nóg komið af nöldri. Það gerðist dálítið skondið atvik í paintballinu. Jú, ég var skotinn af undir eins metra færi beint í smettið. Það fór ekki betur en svo að lítið sem ekkert af kúlunni endaði á grímunni heldur fór hún beint í gegnum eitthvað öndunargat (sem gerir by the way ekkert gagn sbr. að ofan) og átti þetta sársaukafulla stefnumót við kinnina á mér. Nú er ég nett bólginn með upphleypt sár sem líkist hvað helst bóluklasa.
Já, svona fór víst um sjóferð þá.

En nú verð ég að halda áfram með glerhallana, sæl að sinni.

fimmtudagur, september 23, 2004

Nýtt blogg

Jæja, svo ég verði nú ekki antílópa meðal gnýja hef ég ákveðið að opna bloggsíðu.

Á þessa síðu mun ég, auk þess að æfa mig í fingrasetningu, setja inn færslur sem fjalla um líf mitt og tilveru. Ég get því miður engu lofað um gæði skrifanna enda er ég alls óreyndur í þessum efnum. Ég mun hins vegar reyna eftir megni að gera þetta nær sársaukalaust fyrir okkur öll, njótið vel.