...c'est magnifique!

þriðjudagur, júlí 26, 2005

We will stay still

Einhvern veginn hafa bíóferðir á síðustu mánuðum ekki verið nógu fulnægjandi. Er það bara ég eða hafa myndirnar sjálfar hrapað í gæðum? Fyrir nokkrum árum fannst mér fátt skemmtilegra en að kíkja í bíó og kom það varla fyrir að ég varð fyrir vonbrigðum. Alltaf gat ég skemmt mér í bíó. En eitthvað hefur breyst. Ég skal viðurkenna að eftir að ég flutti á höfuðborgarsvæðið fyrir ári síðan hafa bíóferðir orðið tíðari en áður. Meira úrval geri ég ráð fyrir en það er annar handleggur. Hef ég mögulega farið svo reglulega að það bitni á afþreyingu myndanna sjálfra? Hefur sjarminn þá bara fjarað út eftir því sem ég fór oftar? Eða hef ég getað dæmt myndirnar að eigin verðleikum eftir að sjarmi bíósins sjálfs hætti að byrgja mér sýn? Hafa myndirnar alltaf verið svona misjafnar en ég bara ekki áttað mig á því?

Svo er það bara verslunarmannahelgin eftir nokkra daga. Ég er sem betur fer svo heppinn að lenda á dagvakt á laugardag og sunnudag svo ég kemst á Innipúkann báða dagana. Get ekki beðið eftir að berja goðin í Blonde Redhead augum. Mér líst líka mjög vel á danska dúettinn Raveonettes. Það verður líka fróðlegt að sjá hversu mikið verður að gera í Snælandi um helgina.

Lag dagsins: Blonde Redhead - Hated Because Of Great Qualities (minnir mig óendanlega mikið á MR á dimmum og köldum vetrarmorgnum)

föstudagur, júlí 22, 2005

Ertu villtur?

Þetta er klárlega með svalari auglýsingum sem ég hef séð. Tekið í góðfúslegu óleyfi frá Héðni frænda.

þriðjudagur, júlí 19, 2005

Ónefnt

Eins og júní var nú góður bloggmánuður er júlí frekar slakur. Ég veit ekki beint hver ástæðan fyrir því er en ég mun leggja höfuðið í bleyti í leit að svari þegar fram líða stundir.

Þessa dagana er ég búinn að vera að vinna. Já, ég held ég hafi ekki einu sinni tilkynnt það á þessari ágætu síðu. Ég er sem sagt búinn að fá vinnu á Snæland Video. Þetta er fínasta vaktavinna og frábært starfsfólk vinnur þar, samstillt gegn illum yfirmanni sem hvorki finnst stöðluð laun né launaðir matartímar eitthvað til að bjóða starfsmönnum sínum upp á. Þrátt fyrir þetta svífur góður andi yfir vötnum þó að ekki sé hægt að segja það sama um tónlistina sem stanslaust streymir inn um silfraða hátalarana inn í funheita sjoppuna, beint frá höfuðstöðvum FM 957. Og alltaf sömu fokking lögin!

Annað í fréttum er að ég er kominn með æfingaleyfið. Mér hefur sem sagt verið sleppt lausum í umferðina án allra aukapedala eða reynsluríkra ökukennara. Fór í mína fyrstu æfingaakstursferð í dag inn í Reykjavík. Gekk bara mjög smurt.

Svo er það náttúrulega aðalfréttin. Maður er kominn með kvikindið í hendurnar, búinn að þukla vel á því og skoða það í bak og fyrir. Það er nú aðeins styttra en síðast en ég á örugglega eftir að hafa mjög gaman af því. Það er bara svo skemmtilegt að lesa góðar bækur.

Lag dagsins: Soundgarden - Pretty Noose
Pearl Jam-lag dagsins: Save You af Riot Act

fimmtudagur, júlí 07, 2005

Mál!

Ég var að taka til í herberginu mínu í dag og rakst á fullt af skemmtilegu dóti. Meðal annars fann ég handrit af leikþætti sem við í A-bekknum í Holtaskóla settum upp á sínum tíma. Við áttum að nota orðið mál. Hérna er allur þátturinn. Hvílík snilld!

(Árni, Bjarni og Jói sitja við borð. Gísli, Viðar og Valur koma inn og kaupa sér kaffimál á kaffihúsi!)

Árni: "Nú hefst málflutningur!" (færir glösin)

Valur: "Hvað er málið?!"


Bjarni: "Þáttur á Skjá Einum!"

Viðar: "Úúú... bara málglaður."

Gísli: "Hér á sér mikil máldrykkja stað!"

Jói: "Ég hitti Málfríði í gær; hún er víst orðin málari."

Bjarni: (Gísli tekur glasið af honum) "Ég er alveg mállaus!"


Jói: "Mér til málsbóta er hún mjög málug kona!"

Valur: "Ég keypti mér fallegt málverk í gær; það var Málfinnur málari sem málaði það."

Árni: (Bjarni ýtir í glösin svo þau detta) "Þetta er málaflækja!"

Gísli: (við Viðar) "Má ég taka mál af þér?"

Viðar: "Nei, mér er svo mál!"

Bjarni: "Þú ert mjög málstirður í dag, Árni."

Árni: "Það er nú einu sinni málfrelsi!"


Valur: "Ég held það sé komið að málalokum." (lokar glasi)


Hversu snilldarlegt orðagrín er þetta? Þessi leikþáttur markaði upphafið á hinu lítt þekkta svari við spurningunni "Hvað er málið?": "Þáttur á Skjá Einum."


Ég í Orcas Island í Washington
Skarpi svalur og Julian í bakgrunni
Julian og Jenny farsímafíklar

Bless í bili!

sunnudagur, júlí 03, 2005

Msn-samtal

Júnímánuður hefur hlotið þann heiður að vera sá mánuður sem ég hef mest bloggað í frá upphafi þessarar bloggsíðu. Til hamingju, júní.

Tölfræði:

Færslur: 10
Orð: 4700
Orð í ferðasögu: 4050
Myndir: 11
"Og": 198
"Ég": 60
"Á": 139
Júní: Níu og hálf blaðsíða í Word í 12 punkta letri (án mynda).
Ferðasaga: Rúmlega átta blaðsíður í Word í 12 punkta letri (án mynda).

Undarlegt msn-samtal átti sér stað áðan. Einhver Sandra skráði sig inn:

(*:_;Sandra;_:*) says:


Bjarni says:
uu hæ, hver er þetta?

(*:_;Sandra;_:*) says:
sandra ýr

Bjarni says:
ég þekki nú enga Söndru Ýr....?

(*:_;Sandra;_:*) says:
ertu heima hjá þér

(*:_;Sandra;_:*) says:
hvar áttu heima

Bjarni says:
það kemur þér bara ekki við

(*:_;Sandra;_:*) says:
oki

(*:_;Sandra;_:*) says:
hvað ertu gamall

(*:_;Sandra;_:*) says:
??

Bjarni says:
ég held að ég ætti að vera sá sem spyr spurninga

Bjarni says:
hvernig fékkstu netfangið mitt?

(*:_;Sandra;_:*) says:
oki+'

(*:_;Sandra;_:*) says:
hjá strák sem sagði að msnið hanns væri etta

(*:_;Sandra;_:*) says:
á esso móti

(*:_;Sandra;_:*) says:
nu

Bjarni says:
er hann kannski í KR?

(*:_;Sandra;_:*) says:
nei grindavík

Bjarni says:
hvað heitir hann?

(*:_;Sandra;_:*) says:
Bjarni

Bjarni says:
hvað er hann gamall?

(*:_;Sandra;_:*) says:
12

Bjarni says:
jæja, ég er allavega ekki hann. annaðhvort gaf hann þér upp vitlaust netfang eða þú skrifaðir það vitlaust

Bjarni says:
bless

(*:_;Sandra;_:*) says:
bless