...c'est magnifique!

þriðjudagur, október 26, 2004

I want you!

Ég er aftur í kannanastuði.


Hver er þín uppáhalds kvikmynd?

og

Hver er þín uppáhalds tónlistarplata?


Það sem aðskilur þessa könnun frá tónlistarkönnuninni miklu, sem vakti mikla lukku, er að í þessari er aðeins eitt svar leyfilegt fyrir hvora spurningu. Stranglega bannað er að nefna fleiri en eina kvikmynd/plötu!

Nú er bara að velja og hafna, gott fólk. Ég veit að þetta er erfitt en ég efast ekki um að svarhlutfall verði 100%.

sunnudagur, október 24, 2004

Gleði, gleði

Góðan daginn, kærleiksríku lesendur.

Það var gaman í gær. Mjög gaman. Því þá eyddi ég 15 tímum, án hvíldar, með stærðfræðiliðinu mínu. Það fóru þó ekki nema tveir og hálfur tími í sjálfa stærðfræðina.

Við hittumst öll fimm (Elísabet, Halla, Níels og Valborg ásamt mér) í MR klukkan 10 í gærmorgun. Ætlunin með því var að taka þátt í stærðfræðikeppni sem var í formi liðakeppni. Okkur gekk bara skítskikkanlega að koma þessu frá okkur þó að sum dæmin urðu að sitja á hakanum sökum óskiljanleika. Andlega útkeyrð héldum við, eftir keppni, á Subway á Austurstæti með heilann í mauki. Við keyptum kafbáta og fengjum frítt gos með - gegn framvísun Framtíðar-skírteinisins (Framtíðin er annað skólafélag MR fyrir ykkur sem ekki gangið í hann). Fljótt komust vitsmunir okkar í eðlilegt horf. Við kláruðum matinn okkar og töluðum saman í dágóða stund. Í framhaldi af því tilkynnti Halla okkur að hún þyrfti því miður að yfirgefa okkur til að versla afmælisgjöf handa þriggja ára barni. Við mótmæltum eins og við gátum en viðurkenndum að lokum að barnið yrði ekki ýkja ánægt ef það yrði svikið um glaðning. Við fjögur sem sátum eftir með sárt ennið drekktum sorgum okkar í hyldýpi tónlistarinnar (og má þakka iPod-num mínum og heyrnartólsinnstungutvöfaldaranum hennar Elísabetar fyrir það að hvert okkar gat hlustað með öðru eyranu).

Eftir að gleðin hafði komist á skrið á ný, ákváðum við að halda til Valborgar. Tókum sexuna að mig minnir heim til hennar. Þegar þangað var komið tókum við okkur til og spiluðum Trivial Pursuit. Valborg bar þar sigur úr býtum. Svo fórum við að ráðum Elísabetar og keyptum okkur nammi og fleira óhollt í Hagkaupum. Elísabet er nefnilega þannig úr garði gerð að þegar hún hefur ekkert að gera vill hún fagna því með að éta eins mikið af sætindum og hún mögulega getur meðan hún "kúrir". Þetta finnst mér ekkert minna en frábært viðhorf. Það eina sem hindrar að hún verði feit er að það er ekki oft dauð stund, endalaus lærdómur og próf í skólanum. Nú, eftir þennan nammileiðangur fórum við aftur heim til Valborgar og spiluðum þá Gettu betur. Ekki er unnt að tilkynna sigurvegara.

Þegar við þreyttumst á straumi ónauðsynlegrar visku, fannst okkur þjóðráð að smella einni hrollvekju í tækið. Carrie varð fyrir valinu. Hún var alveg fínasta afþreying þó að ekki mikið hafi gerst í henni. Hún er eiginlega tvískipt, annarsvegar unglingadrama frá áttunda áratugnum og hinsvegar hryllingsmynd. Í þesari mynd er besta bregðuatriði allra tíma, samkvæmt einhverjum lista hér um árið, en ég bjóst við meiru, hefði viljað kippast meira til.
Enn vorum við í kvikmyndastuði og horfðum því á 101 Reykjavík. Þessi mynd stóð fyllilega undir væntingum og meira til, enda fyndnari en flest íslensk kvikmyndaverk.

Meðan á kvikmyndaglápinu stóð, bættust vinkonur Valborgar í hópinn. Þær voru mjög fínar, reyndar svolítið ruglaðar á köflum en ekkert meira en við stærðfræðinördarnir. Kvöldið varð fjörugt og skemmtilegt og á stundum var nokkur metingur í gangi. Metingur þessi var leystur á margan hátt, svo sem með sjómanni, götuslagsmálum og ýmis konar perraskap, sem ekki verður farið frekar út í hér.

Mannskapurinn var orðinn mjög svangur um miðnætti og var því hringt á pítsu frá Pizzahöllinni. Valborg reyndi við pítsusendilinn og reyndar símaafgreiðslumanninn líka. Skömmu eftir pítsuátið héldum við Elísabet og Níels heim á leið. Ferðin kostaði mig 2000 kr. Leigubílar eru allt of dýrir. Ég bíð ennþá eftir næturstrætó.

Gærdagurinn var liður í tilraun minni sem ber heitið: "Hvað gerist ef stærðfræðinördar eru látnir eyða 15 tímum saman?" Tilraun lokið.

miðvikudagur, október 20, 2004

Ergo

Vika síðan ég bloggaði? Djö...

Ég sem hélt að ég gæti haldið þetta út og bloggað oft á viku, bara svona til að sýna hinum blogg-letingjunum hvernig ætti að gera þetta. Ég er greinilega lítið skárri sjálfur. Mikilmennskubrjálæðið er fjarað út.


Ég gleymdi að minnast á annað í sambandi við strætó. Þar er alltaf lítill og pattaralegur drengur. Hann er alltaf með síma. Hann er alltaf með símann uppi við. Síminn hringir alltaf. Auðkennanlegt "ring, ring" fyllir strætóinn. Allir líta upp og leggja við hlustir. Drengurinn svarar með sinni skræku röddu. "Hæ, ég er í strætó." Á eftir fylgir stutt lýsing á atburðum dagsins. Allir glotta. Það er alltaf mamma hans sem hringir.


Ég er búinn að hlusta á Blonde Redhead. Það er sko góð hljómsveit.
Nú þarf ég nýja hljómsveit til að dá.

miðvikudagur, október 13, 2004

Strætó

Á mínum uppvaxtarárum (ekki það að ég sé eitthvað fullorðinn núna) í Keflavík (ekki það að það sé langt síðan ég flutti þaðan) lagði ég það ekki í vana minn að ferðast með strætó. Þar eru vegalengdirnar eilítið viðráðanlegri heldur en hérna á höfuðborgarsvæðinu og yfirleitt hægt að "labbiddabara". Nú eru breyttir tímar. Það er langt í allt. Þá er ekkert annað í stöðunni en að kaupa sér strætókort og láta sér lynda hrykkjótta leið á áfangastað.
Núna er ég semsagt tiltölulega nýtilkominn fastagestur í strætó. Ég hef ferðast með honum (meira að segja tveimur) á hverjum morgni niður í MR og svo heim aftur. Þar hefur maður lent í ófáum hremmingunum:


Um daginn sat ég í hægindum mínum í 44 (litla Hafnarfjarðarstrætó) þegar ég tek eftir því að bílstjórinn er alltaf að gjóa til mín augunum. Þetta var allt í fína í fyrstu en síðan fór hann að hressast maðurinn og hafði varla augun af mér. Svipur hans var ólæsilegur. Ég reyndi að gera upp við mig hvort þetta væri einhver kynferðislega brenglaður gamall kall eða hvort ég væri kannski bara með hor. Ég var ekki með hor. Nú, svo gerðist það í næsta stoppi að maðurinn sá arna kallar mig til sín og ásakar mig um að vera með útrunnið strætókort. Ég kvað svo ekki vera og sýni honum kortið máli mínu til stuðnings. Hann sagði fyrirgefðu í hálfum hljóðum og hleypti mér aftur í sætið.
Örfáum vikum síðar var ég sakaður um kortasvindl á ný. Ég sýndi ökuþórnum kortið. Hann reyndi að afsaka sig á einhvern óskiljanlegan hátt. Ég veit ekki hvað veldur þessari tortryggni í minn garð af hálfu strætóbílstjóra. Eru þetta kannski bara graðir miðaldra menn sem þrá ekkert heitar en að sjá mig í návígi?


Svo erum við systkinin í 44 um daginn ásamt Vöku á leiðinni heim í Áslandið. Okkur líður vel og höllum við okkur að veggjum bifreiðarinnar. Við erum að keyra í kringum hringtorg eitt þegar miðaldra kona stendur upp og gengur rólega að dyrunum. Þess má geta að þessi tiltekni strætó er örsmár, á honum eru einungis einar dyr sem staðsettar eru ská fyrir aftan bílstjórann. Er við komumst á beinan veg á ný er kona þessi komin að hurðinni og bíður þar. Ekki hefur verið ýtt á stanstakkann. Það eru aðeins nokkrir metrar í strætóskýlið og athygli mín er vakin. Konan stendur þarna enn, rólegheitin uppmáluð. Svo allt í einu gerist það. Um leið og bíllinn kemst samsíða skýlinu þrykkir hún takkanum inn. Strætóbílstjórinn aðhefst ekkert enda hlýtur konan að vilja fara út næst, annars hefði hún ekki ýtt á takkann svona seint. Þá hefst skemmtunin:

Kona: Hvað? Á ekkert að hleypa manni út?

Bílstjóri: Þú áttir að ýta á takkann fyrr. (Hann stöðvar bílinn.)

Kona: Ég skal sko segja þér það að það er enginn takki þar sem ég sat!

Bílstjóri: Þeir eru út um allan bíl. (Hann lítur við og konan bendir honum á sætið en sér um leið þennan líka stæðilega hnapp fyrir ofan það.)

Kona: Nú, já, fyrirgefðu. Ég hélt bara að þú myndir taka tillit til þess að ég stæði upp.

Bílstjóri: Ég get með engu móti fylgst með því. Til þess eru stanstakkarnir.

Kona: VERTU EKKI AÐ RÍFA KJAFT VIÐ MIG !!! (...og strunsar hún síðan út úr vagninum.)

Bílstjóri: (Verður klumsa við þessu skyndilega æðiskasti og getur engu komið upp úr sér nema...) Bíddu... er ekki í lagi með þig, þarna, ha?

Á svona stundum er gaman í strætó og töluðum við vinirnir um þetta vel og lengi eftir á. En kannski þetta sé svona "you had to be there" saga og lesendum finnist þetta ekkert fyndið? Ég reyndar vorkenndi strætóbílstjóranum að lenda í svona kellingarherfu en þetta er örugglega hressasti og þægilegasti bílstjórinn hjá Strætó.


Einu öðru atviki vil ég deila með ykkur en það gerðist einmitt í dag. Þá var ég líka í 44 en í honum beið óvinveittur maður í yngri kantinum sem átti að heita bílstjóri. Er ég geng inn ber mér fyrir sjónir drengur (á að giska 10-12 ára) og virðist hann djúpt sokkinn í dauðaleit að einhverju. Ég sýni bílstjóranum kortið mitt góða og fæ mér svo sæti framarlega. Drengurinn leitar enn að guð má vita hverju og ökumaðurinn segir honum í sífellu að það vanti tíu krónur upp á gjaldið. Lagði ég nú saman tvo og tvo og fékk út að drengurinn væri að leita að tíkalli. Drengurinn stynur úr gremju og tilkynnir bílstjóranum að hann hafi bara ekki tekið meira með sér vegna þess að hann sé venjulega með strætómiða. Bílstjórinn lætur sér fátt um finnast og hamrar á því að tíu krónur vanti upp á. Greyið strákurinn er alveg ráðalaus og spyr hvort hann gæti bara ekki fengið þessar 210 krónur sínar til baka (sem hann hafði sett ofan í peningakassann). Maðurinn er ekki á þeim skónum heldur segir einfaldlega að hann hafi ekki lykil að kassanum og því geti krakkinn ekki fengið endurgreitt og bætir svo við að enginn hafi neytt krakkann til að setja peninginn í kassann. Nú er drengurinn frekar niðurdreginn og spyr hvort hann gæti ekki bara fengið að sitja í. Nei, segir kallinn og hristir hausinn, það vantar jú tíu krónur upp á. Mér blöskraði við að heyra þessi ómannúðlegu orð og fannst ekki mikið til þessa bílstjóra koma, svo ekki sé meira sagt. Ég dró þá upp leðurveskið, fann þar til eitt stykki tíkall, stóð upp, gekk að þeim kumpánum, lét myntina falla í baukinn og sagði ofursvalur: "Hérna er tíkall, ég er þá búinn að gera eitt góðverk í dag." Svo sneri ég mér á hæl og arkaði að sæti mínu. Drengurinn settist skammt frá, brosandi og þakkaði mér í bak og fyrir. Það hlakkaði í mér alla leiðina heim og þurfti ég oft að berjast við brosið til að halda kúlinu.

laugardagur, október 09, 2004

Blogg

Frá því að ég opnaði þessa síðu hef ég tekið eftir mjög miklum mun á virkni kynjanna í bloggheiminum. Til vitnis um þetta er nóg að líta á tenglalistann minn þar sem mikill meirihluti síðnanna er í eigu stúlkna. Sömu sögu segja kommentin en þau einkennast einnig mestmegnis af kvenbloggurum. Nú veltir fólk vöngum og spyr sig hver ástæðan fyrir þessu sé. Gæti verið að stelpur hafi meiri frítíma en strákar? Gæti verið að stelpur séu meira fyrir að tjá tilfinningar sínar eða hafa þær einfaldlega meira að segja? Hver svo sem ástæðan er er ljóst að hún mun ekki finnast í fljótu bragði. Hver veit nema þetta verði helsta viðfangsefni félagsfræðinga í framtíðinni?

Ég hef líka tekið eftir því að langflestir sem kommenta á hin ýmsu blogg reka sjálfir samskonar síður. Af þessu má sjá að fólk upp til hópa er annaðhvort mjög virkt í blogginu; á síðu og kommentar á aðrar eða hefur engan áhuga á þessu og sniðgengur þetta algjörlega.

Þá hef ég lokið þessari litlu greiningu minni á íbúum bloggheima.

Að lokum vil ég lýsa minni ótvíræðu aðdáun á gáfumannahljómsveitinni Parent sem skipuð er þeim Hildi Kristínu í 3.B (mínum bekk) og Héðni og Jóni í 3.F. Ég bíð óþreyjufullur eftir næsta "live performance-inu" og vona innilega að Parent haldi áfram á sömu braut. Svo verð ég að fara að hlusta á Blonde Redhead.

laugardagur, október 02, 2004

Tími fyrir S og S

Ég held ég hafi þetta bara stutt í dag og einskorði þessa færslu við tvær spurningar:


Hverjir eru þínir uppáhalds tónlistarmenn?

og

Hver eru þín uppáhalds lög?


Ef þið eigið í erfiðleikum með að nefna eitthvað af ótta við að gleyma einhverju er afbragðsráð að nefna þá tónlistarmenn og þau lög sem þið eruð helst að hlusta á í augnablikinu.

Ég ætlast til að allir láti skoðun sína í ljós enda er feimni bönnuð með öllu á þessu vefsvæði.