...c'est magnifique!

föstudagur, febrúar 17, 2006

Ticket to Ride

Árshatíðarvika Framtíðarinnar er á enda en þemað var "Gullöldin". Árshátíðarballið í gær var alveg rosalega ljúft, jafnvel betra en Gus-Gus söngballið þann 19. janúar á Nasa, þrátt fyrir gríðarlegan stemmara þar. Í gær spiluðu fyrir dansi hinir einu sönnu Det Betales, bítlacoverlagabandið frá Noregi. Þar sem ég hlusta frekar lítið á Bítlana kalla ég þá góða fyrir að ná að skemmta mér svona mikið með setti sem samanstóð eingöngu af Bítlalögum. Good on them.
Gærdagurinn hófst með fínu morgunpartíi hjá Guðrúnu bekkjarfélaga þar sem við borðuðum bakkelsi, horfðum á Árshátíðarsjónvarpið og spiluðum mjög svo umdeilt Actionary. Þaðan fór ég í einhvern súrasta leiðangur sem um getur. Mamma bað mig um að kaupa ís handa leynivini sínum í vinnunni og fara með hann þangað. Þetta misheppnaðist hrapalega, þökk sé linum ís og litlu boxi, og varð afspyrnu sóðalegt eftir bíltúrinn frá Kringlunni og upp í Efstaleiti. Svo sóðalegur og lekandi út um allt, að ég ákvað á staðnum að fara ekki með hann inn. Ingibjörg hins vegar reddaði þeim málum. Hún skutlaði okkur strákunum á Árshátíðardagskrána í Loftkastalanum og keypti kökusneið handa leynivininum. Það glitti í mig í ball-atriði í Árshátíðarmyndinni og má segja að það hafi bjargað myndinni. Í alvöru sko. Eftir það fórum við svo bara heim (moi et Ingibjörg) og gerðum okkur til fyrir kvöldið sem var nokkurn veginn svona: Góður matur á Kaffi Reykjavík (og myndataka á James Bond-legum "ísbar"), eitt skemmtilegasta fyrirpartí í manna minnum með æðisgenginni tónlist og gleði og þaðan haldið á ballið í gímaldinu Gullhömrum. Vel heppnaður dagur svona á heildina litið.

Annars er í nýlegum fréttum skuggalega lágar einkunnir og fáránlegar breytingar á steinaldarsjoppunni Snælandi, þar sem ég vinn núna bara annan hvern sunnudag. Miklar breytingar hafa verið gerðar á grillinu, óteljandi gerðir hamborgara, samloka, báta og meðlætis nú á boðstólnum. Þetta er náttúrlega bara hálfvitalegasta stefna sem þessi annars slappa sjoppa hefði getað tekið. Aðstaðan býður engan veginn upp á þessar nýjungar, grillið enn þá jafnlítið, plássið á bakvið þrengist og þrengist þannig að núna er heilmikið vesen að komast þar um; kössum og vörum staflað um allt. Sjoppan sjálf er svo svona eittþúsundáttatíuogníu fermetrar af ónýttu plássi og búðarborðið tveir kílómetrar að lengd. Svo raðast kúnnarnir upp eftir endilöngu borðinu og allt fer til helvítis. Svona stór sjoppa virkar ekki án þess að hafa fleira starfsfólk. Það þyrfti að minnka sjoppuna um slatta og stækka svæðið bakvið í staðinn. Við skulum svo auðvitað ekki gleyma hálfbiluðu búðarkössunum frá tímum Egils Skallagrímssonar og hæsta verði sem nokkur maður hefur þurft að sætta sig við. Svei, þú hæpersveitta sjoppa.

Ehh, það er svo leiðinlegt að röfla svona.
Hlustið bara á "Hedonism (Just Because You Feel Good)" með Skunk Anansie og verið happí.