...c'est magnifique!

þriðjudagur, desember 05, 2006

Átt þú þetta?

Líffræðin gekk frekar vel. Franskan á morgun - enginn metnaður.

Áðan var bankað á útidyrahurðina. Var þar lítil stelpa úr næsta húsi (húsinu sem er pallmegin). "Hæ, átt þú nokkuð þetta?" sagði hún og dró upp 50 ml óopnaða brennivínsflösku. "Þetta var við pallinn þinn. Það eru líka einhverjar bjórdósir þar. Ég var bara að leika mér þegar ég sá þetta."
"Uuuu... já. Ég kannast nú ekki við þetta sko ha... eee... já. Það var hérna partí um daginn og einhver hlýtur að hafa týnt þessu þá. Ég skal bara taka þetta. Hérna... takk fyrir að láta mig vita. Bæbæ."

Nokkrum mínútum síðar...

Bankað. Litla stelpan aftur. Í þetta skiptið með svellkaldan Heineken í höndunum, óopnaðan. "Hæ, ég fann þetta líka við hliðina á pallinum."
Þá fór ég með henni út að rannsaka. Viti menn. Til viðbótar við fyrrnefndan sukkvökva var þar annar fjársjóður. Aleinn og yfirgefinn á miðjum pallinum, vinalaus í tómlegum plastkraga fyrir sex, blasti við gullmoli. Egils Gull.
"Bless bless," sagði ég við stelpuna og labbaði inn klyfjaður af byggdrykkjum sem fennti svo eftirminnilega yfir fyrir tveimur og hálfri viku síðan.

Kannski frönskulesturinn verði ögn bærilegri núna...

mánudagur, desember 04, 2006

Slaka?

Efnafræðin búin. Hefði mátt ganga betur. Líffræði á morgun. Hlýtur að ganga betur.

Sá frétt á mbl.is áðan með yfirskriftinni "Dæmdur í 30 fangelsi fyrir að kasta köku í fjármálaráðherra Noregs". Mér finnst nú fullgróft að ætla að bita manninn niður í þrjátíu hluta fyrir svona flipp.

Nú er bara spurningin, hafa þeir leiðrétt fyrirsögnina þegar þú ýtir hér?

laugardagur, desember 02, 2006

Taumlaust eirðarleysi

Í prófum nennir maður að gera allt annað en að læra. Fyrsta prófið er ekki einu sinni búið og ég er strax kominn í ruglið. Hef verið að æfa mig í að halda boltum á lofti, borða smákökur, setja saman kindereggsleikföng og kveikja í eigum mínum. Tók svo myndir af þessu tvennu síðastnefndu.