...c'est magnifique!

laugardagur, mars 18, 2006

Tremmi

Nú er kosningavika framundan í skólanum og margir að bjóða sig fram. Margir meira að segja ansi frambærilegir og ætla sér mikla og góða hluti. Elísabet ætlar að vekja myndlistadeild Listafélags Skólafélagsins af værum blundi með frábærum hugmyndum um samtengda atburði listafélaganna og ef Hildur Kristín yrði kosin scriba scholaris mundi hún jafnvel berjast fyrir því að Morkinskinna kæmi einu sinni út á réttum tíma. Ef það er á þinni stefnuskrá, Hildur, þá færðu allavega mitt atkvæði. Síðan ætlar Reykjanesbæjarstjórasonurinn Guðmundur Egill að bjóða sig fram í quaestor scholaris og óska ég honum góðs gengis með það. Svo eru auðvitað miklu fleiri að bjóða sig fram...

Og áfram skólamál: Nú eigum við að fara að velja deild fyrir næsta ár. Í boði eru Eðlisfræði I, Eðlisfræði II, Náttúrufræði I og Náttúrufræði II. Frekar erfitt val. Það er allavega á hreinu að ég velji Náttúrufræði en hvora deildina? Ég er að skoða námsgreinarnar á þessum deildum í þessum töluðu orðum. En hvað ætti að ráða þessu vali? Jú, það hlýtur að vera það sem ég stefni á að læra í háskóla en það breytist dag frá degi og aldrei er ég viss. Læknisfræði? Líffræði? Lífeðlisfræði? Erfðafræði? Verkfræði? Eða bara eitthvað allt annað? Á deild II eru sex einingar í "frjálsu" vali en ekkert á deild I. Reyndar getur maður valið um annað hvort stjörnufræði eða erfðafræði á þeim báðum en mig langar að læra bæði! Fljótt á litið (án ábyrgðar) er munurinn á Náttúrufræðideild I og II þessi:

5. bekkur: Tveimur einingum meira af stærðfræði á I.
6. bekkur: Sex einingar af eðlisfræði á I en engin á II. Í staðinn eru sex einingar af vali á II en ekkert á I.

Óákveðinn gaur eins og ég þarf að halda sem flestum möguleikum opnum. Eftir þessi skrif held ég að Náttúrufræðideild I henti best fyrir það. Úúú sjálfsgreining.

Vá, ég tók ákvörðun! (Ætli hún haldist?)