...c'est magnifique!

mánudagur, júlí 31, 2006

Te og gin

Jííííha! Helgin var alveg svakaleg. Ytri akrein hringvegarins keyrð til enda. Fokk margir kílómetrar og sjitt mikill bensínkostnaður. En allt var þetta þess virði. Þó ekki væri nema til að tjútta við 'We Are the Sleepyheads' með fáránlega hröðum takti. Tónleikarnir voru ótrúlegir, Emilíana frábær og fyndin og Stevie Jackson ætti að varðveita til enda heimsins.


Hvað á maður að gera um verslunarmannahelgina? Hugmyndir? Annars finnst mér ég þurfa að innlima pælingar og lífsspeki í þetta blogg.

Blogga meira seinna. Bless.

sunnudagur, júlí 23, 2006

Asking the same 'why?'

Sæl öll. Þá er ég kominn úr bloggsumarfríi.

Vinnan gengur sinn vanagang. Fyrir nokkrum vikum var brjálað þar sem ég var einn í móttökunni en sem betur fer stóð það ekki lengi og mannskapur bættist við. Nú er svo komið að við erum næstum ofmannaðir.
Eldri maður er einn af "nýja" fólkinu. Hann er gamall sjómaður og áhugamaður um siglingar og veit mikið um alls konar fiskveiðidót sem heitir alls konar nöfnum og enginn veit hvað heitir nema hann.
"Hei, Örn! Hvað er þetta?" - Og með skringilega hljómandi nafninu fylgir oft frásögn um not vörunnar. Nú kann ég til dæmis að veiða lunda í lundanet, veit hvernig ómunnleg samskipti tveggja skipstjóra fara fram og hvaða hlut skal setja milli skips og hafnar sem þolir margra tonna þrýsting og skemmir hvorki bát né bryggju.


Föstudagurinn var mjög skemmtilegur og vonandi að annað fólk sé á sama máli. Takk þið sem mættuð en líka þið sem hefðuð viljað koma en gátuð það ekki.


En nú fer að koma að einum aðalviðburði sumarsins. Um næstu helgi er nefnilega roadtrip/útilega/Belle and Sebastian og Emilíana Torrini tónleikar á Borgarfirði Eystra.

Í dag var frábær Rokklandsþáttur þar sem Belle and Sebastian voru í aðalhlutverki og símaviðtal tekið við Stuart Murdoch, aðalsöngvara og -lagahöfund sveitarinnar. Þar sagði hann (eins og í viðtali í Mogganum) að tónleikarnir tveir yrðu vafalaust frekar ólíkir (líklega um helmingi laganna skipt út milli tónleika) enda vilji þau breyta til frá kvöldi til kvölds. Einnig, þó að opinberlega sé þetta Life Pursuit-túr, muni þau taka heilmikið af gömlu efni og sagði hann að það kæmi fólki á óvart hversu mikið þeir fari aftur í tímann og spili talsvert af lögum af fyrstu tveimur breiðskífum sínum: Tigermilk og If Your Feeling Sinister. Þeim finnist þau ekki skyldug til að spila gamla efnið heldur finnist þeim forréttindi að geta leitað í gamla slagara.

Fleira spennandi kom fram í viðtalinu, milli vel valinna laga og frábærrar útgáfu B&S af hinu forna írska drykkjulagi Whiskey in the Jar, eins og til dæmis það að þau væru ekki alveg viss hvernig það atvikaðist að þau muni spila í litla sjávarþorpinu Bakkagerði á Austurlandi. Líklegast hefðu einhverjir Íslendingar stungið upp á því og fundist það góð hugmynd og hljómsveitin tekið undir það.

Heiða (í Unun) sem tók viðtalið við Stuart spurði hann svo hvort hann ætlaði ekki að upplifa hina íslensku útilegustemmningu og tjalda í Borgarfirði. Hann spurði á móti hvort það væru skordýr sem bitu mann meðan maður svæfi í tjaldi eins og í Skotlandi og þegar hann fékk neitandi svar sagði hann að það gæti vel verið og að hann tæki svefnpokann sinn með sér.
Hann sagði líka frá því þegar hljómsveitin hafi verið að spila á hátíð í Japan hafi hann fyrir misskilning fundið upp nýjan leik þegar hann lék sér í frisbee og farið úr buxunum vegna hita. Þá hafi hinn fjörugi leikur stripp-frisbee orðið til sem þau spiluðu við hina íslensku hljómsveit múm. Leikurinn er þannig að í hvert skipti sem einhver grípur ekki frisbee-diskinn þarf hann að fara úr einni spjör.

Það er því ljóst að frisbee-diskur verður hafður með í för á laugardaginn og farið í stripp-frisbee með Belle and Sebastian á tjaldstæðinu á Borgarfirði eystra.