...c'est magnifique!

þriðjudagur, janúar 08, 2008

Hugarró

"Eeeh? Aaa!... il piccolo piccolo!" sagði litli gamli húsvörðurinn áhugasamur og benti á fljúgandi furðudýr sem skaust um loftið af gífurlegri fimi og saug hunangslög af áfergju úr skærlitum blómum með löngum rana sem annars var dreginn saman í hring.

"Uuu... le piccolo... du... du monde?" spurði ég forvitinn en ítalskan mín var ekki upp á marga fiska.

"Si, si!" sagði hann kátur á móti. "Piccolo piccolo!"

"Uuu... is it... a bird?" Ég lagði mikla áherslu á síðasta orðið og veifaði meira að segja handleggjunum eins og fugl enda nokkuð skeptískur á að þetta framandi kvikindi gæti verið nokkuð svo hversdagslegt.

"Si, si! Il piccolo piccolo!" ítrekaði hann kampakátur einu sinni enn. Svipbrigðin breyttust hins vegar ekkert við spurninguna og grunaði mig að hann hefði ekki skilið. Ég ákvað því að spyrja hann ekkert frekar út í þennan, að því er virtist, kæra vin sinn í þeirri viðleitni að forðast óþægilegt og skilningslaust augnablik. Þess í stað sneri ég mér aftur að þessu fallega dýri sem hékk fast í lausu lofti við tigarlegt rautt blóm. Rétt mótaði fyrir leiftrandi vængjunum sem hreyfðust á ótrúlegum hraða líkt og á flugu.

Ég mundaði myndavélina en það reyndist hægara sagt en gert að ná mynd. Aftur á móti var skepnan allt annað en mannfælin; hún kippti sér ekkert upp við nærveru mína heldur þaut á milli krónublaða í leit að blómsykri. Í æsingi mínum við að ná mynd fór ég jafnvel svo nálægt að hún rakst í linsuna. Á næstu dögum átti ég eftir að sjá fleiri svona dýr, flest er Toskanasólin var í þann mund að setjast, við snyrtilegu beðin sem gamli húsvörðurinn hélt vel til haga.sunnudagur, júní 10, 2007

Eitt núll fyrir mér

Það er ekki á hverjum degi sem hinn almenni eldsneytisneytandi fær möguleika á að klekkja á stóru olíufélagi. Það kom því sem ljúfur andvari eftir stórhríð þegar gullið tækifæri féll mér í skaut á föstudaginn.

Kæru Íslendingar. Nú tek ég upp hanskann fyrir ykkur og nota hann til þess að slá olíurisa utanundir. Megi það verða til þess að minnka gremju og biturleika næst þegar þið fyllið á skrjóðinn ykkar.
Vinir, þegar bensínfnykurinn leikur um vit ykkar munið manninn sem streittist á móti okrinu og kom höggi á andstæðinginn. Þegar krónutalan á dælunni eykst hraðar en veldisvísisfall munið manninn sem hjó kúgunina í herðar niður. Þegar þið hvorki tjúttið né tannist á Tene vegna eldsneytisútgjalda herðið upp hugann og munið að nú fær olíuógeðið að kenna á því. Munið Bjarna Þorsteinsson.

Gleraugun mín brotnuðu í vinnunni. Olís borgar ný. Ég ætla að kaupa dýr gleraugu.

sunnudagur, maí 06, 2007

Förum í ferðalag

Prófin eru byrjuð. Íslensk ritgerð búin. Ég skrifaði eitthvað sjitt um viðhorfsbreytingar. Viðhorfsbreytingar! Díses kræst. Ég ætla sem sagt að giska á að ritgerðin "Andlegt ferðalag" skori ekki hátt. "...ferðalag hugans er viðhorfsbreytingar..." -ómægad.

Munnleg enska á morgun. Vibbí! Þá get ég talað um mannsfósturvísisklónun eins og mér sé borgað fyrir það. Hver fílar það ekki?

Íþróttafréttamaður hjá 365 heitir Hans Steinar Bjarnason. Ég er auðvitað forfallinn aðdáandi orðaleikja og skríkti því náttúrlega eins og smástelpa á spítti þegar ég heyrði nafnið.

"Hei, er þetta Hans Steinar?"
-"Nei, þetta eru mínir steinar!"

Dimissio

mánudagur, apríl 09, 2007

París

París var stórkostleg! Ótrúlega skemmtileg.

Já, við komum sem sagt heim síðasta miðvikudag úr einni skemmtilegustu ferð sem ég hef upplifað. Ég tók myndavélina með og læt því myndirnar tala sínu máli (því ekki nenni ég að skrifa meira eftir tímann sem fór í að koma þessum myndum inn).

Gjöriði svo vel.

laugardagur, mars 10, 2007

Vígtenntar vonir

Fyrir árshátíð Skólafélagsins á haustmisseri vorum við með leynivini. Minn var Guðrún Mist. Ég samdi henni ljóð frá hyldýpi hugar míns. (Lesist með miklum tilþrifum, dramatískum þögnum og helst upphátt).


Óður til vígtenntra vona á válegri vetrarnóttu

Ó, Guðrún Mist,
þig hef ég aldrei kysst.
Sem daggardropi á grónu túni,
skal ég draga að húni
ljóma þinn og drauma.

Munu þeir þar á vindum fljóta
enginn tími til að skjóta
sendiboðann.

Þar stend ég hjá
og horfi.

Sem hnotuviður hugsjóna þinna mun
ljós myrkursins brenna.
Brenna.
Brenna.
Æ, ég brenndi mig.

Augu þín eru þúsund gimsteinar
sem eiga ekkert skylt við loftsteina
sem eru ófagrir.

Hve langt þurfa menn að leita
til að fá að skreyta
líf sitt
með þér.

Að ofan svífa dásamlegar dísir
niður.
Þú kreistir þær í höndum þér,
lífskrafturinn lekur,
á þig,
yfir þig,
um ókomna tíð.
Og mýfluga eilífðarinnar grætur í hljóði.

Á fjarlægu smáblómi sálar minnar er skuggi,
komdu aftur.


-Erbín Pólon, tu amigo secreto

miðvikudagur, mars 07, 2007

Svitar

Hvað er málið með helvítis blogger? Hann neitar að publish-a ef maður hefur örlítið langa færslu. Ehh. Þetta átti að fylgja með hinu:

Sviti. Ég hef svitnað mikið undanfarið af tveimur ástæðum.
Númer eitt. Ég er búinn að kaupa mér hálfsárskort í World Class Laugum. Það verður stundað grimmt. Kaldhæðnislegt samt að það pleis, sem á að gera mann heilbrigðan, er líklegast valdurinn að hinum svitanum. Jahá, ræktinni finnst nefnilega ekki nóg að láta mann svitna í Laugum heldur líka í Hafnarfirði. Jújú, ég fékk flensuna. Og hef verið að svitna í bílförmum í hita- og kuldaköstum. Takk, World Class.

Þátíð

Vá, það er svo sjittfokkass-mikið búið að gerast frá því að ég bloggaði síðast (sem er alveg tveir mánuðir).

Ókei. Það var t.d. Söngkeppni og -ball... nei, heyrðu, jólaballið líka! Andskotinn. Þetta Bu luju segir náttúrlega ekkert. (Wink). Nei, grín. Úff, ég er farinn að svitna núna af samviskubiti yfir bloggleysi. Og ég sem hef svitnað nógu mikið undanfarið. Æ, ég kem að því seinna.

Ég var að tala um böll (haha). Jólaballið var vel skemmtilegt. Fyrirpartí hjá Thelmu. Söngballið var líka frekar hresst, fyrirpartíið fannst mér samt hressara (hjá Þórunni). Síðast en ekki síst var árshátíð Framtíðarinnar 15. febrúar. Loftur hélt morgungleði (næstum morgunógleði (þá meina ég orðið, ekki partíið)) sem heppnaðist ljómandi vel. Þaðan fórum við nokkur í keilu. Um kvöldið borðuðum við svo í Perlunni hringsnúandi. Það var gaman. Þessi fjögurra rétta máltíð var samt varla fjórir réttir heldur meira svona aðalréttur borinn fram á eftir sýnishorni af kjúklingalifrarkæfu og smakki af sjávarréttasúpu. Annars var þessi kæfa reyndar alveg heldrjúg og varð yfirleitt eftir í glasinu sínu. Eftir svona 300 gráður af útsýni fórum við í fyrirpartíið okkar hjá Heru. Ágætis partí. Svo var það bara Broadway og danskorti nauðgað af fjölda spriklandi sprunda.

Ég er með einhverja áráttu að "skrá" svona viðburði.
Ég skrifa til að muna en dansa til að gleyma.

Myndablogg II?Blogger vildi ekki birta þetta í byrjun janúar í heilu lagi. Það er því að kenna að ég nennti ekki að blogga. Ég ákvað núna að skipta þessu í tvo hluta. Sko, þróun er ekki bara kenning.
Annars er þetta lokainnslag hins magnaða þríleiks "færslursemberatitilsemendaráspurningamerki". Þ.e.a.s. ef þessir tveir hlutar gilda sem einn.

Myndablogg I?

föstudagur, janúar 05, 2007

Bu

luju